Knattspyrna | 8. maí 2010
Leikmenn Keflavíkur - Miðjumennirnir
Þá er komið að miðjumönnum Keflavíkur í yfirferð okkar yfir leikmenn liðsins í sumar. Það hefur orðið nokkur endurnýjun á miðjusvæðinu og nokkur ný andlit komin í hópinn, þeir Andri Steinn Birgisson, Ómar Karl Sigurðsson og Paul McShane. Gömlu refirnir Hólmar, Jóhann Birnir og Magnús Sverrir eru á sínum stað og ungu mennirnir Einar Orri, Sigurbergur, Bojan og Magnús Þór láta örugglega ekki sitt eftir liggja. Á síðustu metrunum hefur svo bæst í hópinn lánsmaðurinn Kayleden Brown frá Englandi.
 |
Hólmar Örn Rúnarsson 28 ára - Númer: 25 Deild: 137/23 Bikar: 22/6 Evrópa: 8/1 1 leikur U-21 árs Bikarmeistari með Keflavík 2004 og 2006
Keflvíkingur í húð og hár sem lék um tíma með Silkeborg í Danmörku. Lykilmaður á miðjunni hjá liðinu. Hefur verið valinn í nokkra landsliðshópa en á eftir að leika sinn fyrsta landsleik. |
 |
Paul McShane 32 ára - Númer: 5
Gekk til liðs við Keflavík fyrir þetta tímabil. Var hjá Glasgow Rangers sem unglingur en hefur leikið á Íslandi í áratug, fyrst með Grindavík og tvö síðustu árin með Fram. Á að baki 177 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 23 mörk. |
 |
Andri Steinn Birgisson 26 ára - Númer: 8 2 leikir U-19 ára
Kom til liðs við Keflavík í vor frá Fjölnir. Hefur auk þess leikið í Noregi og Grindavík og með úrvali liða af höfuðborgarsvæðinu. Sterkur miðjumaður sem getur einnig leikið sem miðvörður. Á að baki 63 leiki í efstu deild og fimm mörk. |
 |
Einar Orri Einarsson 20 ára - Númer: 6 Deild: 37 Bikar: 6 Evrópa: 4 3 leikir U-18 ára, 4 U-17 ára Bikarmeistari með Keflavík 2006
Uppalinn í Keflavík og er kominn með þó nokkra reynslu með meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur. Hefur venjulega leikið sem aftasti miðjumaður en hefur einnig verið að leika sem miðvörður í vorleikjunum.
|
 |
Jóhann Birnir Guðmundsson 32 ára - Númer: 7 Deild: 73/18 Bikar: 14/5 Evrópa: 8/1 8 landsleikir, 11/5 U-21 árs, 10/1 U-19 ára, 2 U-17 ára Bikarmeistari með Keflavík 1997
Kemur úr Garðinum og hóf ferilinn með Víði eins og fleiri góðir menn. Lék fyrst með Keflavík árið 1994 og sneri aftur árið 2008 eftir áratug sem atvinnumaður í Englandi, Noregi og Svíþjóð. Lék um tíma með Watford og er einlægur aðdáandi Elton John síðan þá. Aldursforseti liðsins. |
 |
Magnús Sverrir Þorsteinsson 27 ára - Númer: 11 Deild: 140/30 Bikar: 21/5 Evrópa: 7/1 5 leikir U-21 árs, 4 U-18 ára, 7/3 U-16 ára Bikarmeistari með Keflavík 2004 og 2006
Heimamaður sem lék með Keflavík í gegnum alla yngri flokka og byrjaði með meistaraflokki árið 1999. Lék eitt sumar með Grindavík. Sló í gegn sem "super-sub" árið 2008 og skoraði þá öll fimm mörk sín í deildinni eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Skoraði sjö mörk í deildinni í fyrra sem er hans besti árangur til þessa.
|
 |
Ómar Karl Sigurðsson 27 ára - Númer: 26
Gekk til liðs við Keflavík fyrir þetta tímabil eftir að hafa leikið með liði í Noregi. Lék áður lengi með Haukum, m.a. undir stjórn Willums Þórs. Sprækur kantmaður sem hefur sýnt skemmtilega takta í vorleikjunum. |
 |
Magnús Þór Magnússon 18 ára - Númer: 22 Deild: 2 Bikar: 3
Enn einn ungi leikmaðurinn sem er að koma upp úr yngri flokkum félagsins og bankar á dyrnar hjá liðinu. Lék fyrst með meistaraflokki í fyrra og hefur verið að leika þó nokkuð á undirbúningstímabilinu.
|
 |
Bojan Stefán Ljubicic 17 ára - Númer: 15 Deild: 4 2 leikir U-18 ára
Kemur upp úr yngri flokkunum og lék fyrst með liðinu á síðasta tímabili. Faðir hans er Zoran Daníel, fyrrum fyrirliði Keflavíkur, og nú þjálfari yngri flokka hjá félaginu.
|
 |
Sigurbergur Elísson 17 ára - Númer: 23 Deild: 2 3/1 leikir U-17 ára
Varð yngsti leikmaður efstu deildar karla þegar hann lék gegn Fylki í september 2007, þá 15 ára og 149 daga gamall. Hefur átt við meiðsli að stríða og náði ekkert að leika í fyrra. Faðir hans er Elís Kristjánsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna og þjálfari yngri flokka kvenna hjá Keflavík.
|
 |
Kayleden Brown 18 ára - Númer: 28
Verður hjá Keflavík í sumar sem lánsmaður frá West Bromwich Albion. Hefur leikið með unglinga- og varaliði félagsins en tókst að komast í bekkinn í leik í vetur og var einnig í láni hjá utandeildarliðinu Barrow. Hefur leikið með unglingalandsliðum Wales og er nú í U-19 ára landsliðinu sem er með Íslandi í riðli í undankeppni Evrópukeppninnar. |