Fréttir

Knattspyrna | 7. maí 2010

Leikmenn Keflavíkur - Varnarmennirnir

Við höldum áfram að kynna leikmenn Keflavíkurliðsins og nú er komið að varnarmönnum.  Þar hafa orðið litlar breytingar frá síðasta keppnitímabili.  Þá fékk liðið á sig 37 mörk í 22 leikjum, miðað við 31 mark árið áður.  Ljóst er að við teflum fram öflugum og reyndum leikmönnum í öftustu víglínu þannig að nú reynir á að menn nái að stilla saman strengi sína í sumar.

 

 

 




Guðjón Árni Antoníusson
26 ára - Númer 3
Deild: 139/9     Bikar: 22/4     Evrópa: 11
1 landsleikur
Bikarmeistari með Keflavík 2004 og 2006

Hóf ferilinn með Víði í Garði en byrjaði með Keflavík árið 2002.  Hefur verið fastamaður og einn traustasti leikmaður liðsins allar götur síðan.  Skoraði í úrslitaleik bikarsins gegn KR árið 2006 þegar Keflavík vann 2-0.  Lék sinn fyrsta (og hingað til eina) landsleik gegn Færeyjum í fyrra; skoraði sigurmark leiksins en því miður unnu Færeyingar 2-1.  Valinn leikmaður ársins hjá Keflavík árið 2006.



Bjarni Hólm Aðalsteinsson
25 ára - Númer: 20
Deild: 20/1     Bikar: 3     Evrópa: 2
2 leikir U-21 árs, 5/1 U-19 ára, 7 U-17 ára

Er að hefja sitt annað tímabil með Keflavík en lék áður með ÍBV, Huginn og Fram.  Stór og sterkur miðvörður sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og hefur m.a. sérhæft sig í að leika knattspyrnu þrátt fyrir að hafa fengið þung höfuðhögg.



Haraldur Freyr Guðmundsson
28 ára - Númer: 4
Deild: 70/8     Bikar: 14/2
2 landsleikir, 4 U-21 árs, 8 U-18 ára
Bikarmeistari með Keflavík 2004

Heimamaður sem lék fyrst með meistaraflokki árið 1999.  Kom aftur til Keflavíkur um mitt síðasta sumar eftir að hafa leikið sem atvinnumaður í Noregi og á Kýpur.  Valinn leikmaður ársins hjá Keflavík árið 2002.  Verður fyrirliði liðsins í sumar.
 



Alen Sutej
24 ára - Númer: 2
Deild: 21/2     Bikar: 3     Evrópa: 2

Slóveni sem er að hefja sitt annað tímabil með liðinu.  Lék sem miðvörður fyrri hluta síðasta tímabils en færði sig síðan í vinstri bakvörðinn og hefur verið að leika þar í vor.  Hávaxinn og hættulegur í föstum leikatriðum.  Eini leikmaður Keflavíkur sem hefur raunverulega ástæðu til að fylgjast með HM í sumar.



Brynjar Örn Guðmundsson
27 ára - Númer: 16
Deild: 41/1     Bikar: 7     Evrópa: 2
2 leikir U-18 ára, 3 U-16 ára

Heimamaður sem lék með Keflavík í yngri flokkunum og lék fyrst með meistaraflokki árið 2001.  Lék síðan í nokkur ár með Reyni í Sandgerði en kom aftur heim árið 2008.  Hefur eytt mestallri ævinni í bakvarðastöðunni en hefur einnig leikið á miðjunni í vor.



Sigurður Gunnar Sævarsson
19 ára - Númer: 24
Deild: 1     Bikar: 1

Einn af fjölmörgum ungum leikmönnum sem eru að láta til sína taka hjá Keflavík.  Lék sinn fyrsta leik í efstu deild í síðustu umferðinni í fyrra og hefur leikið mikið á undirbúningstímabilinu í vor.