Lengjubikarinn af stað
Í gær, fimmtudag, undirrituðu Knattspyrnusamband Íslands og Íslenskar getraunir samstarfssamning um að Deildarbikarkeppni karla og kvenna árið 2007 beri heitið Lengjubikarinn. Í samningnum felst m.a. að Íslenskar getraunir munu nota leiki keppninnar á Lengjuna sem og að verðlaunafé verður veitt til sigurvegara í Lengjubikarnum. Verðlaunafé fyrir sigur í A-deild karla og kvenna er 250.000 krónur
Keflavík spilar fyrsta leik sinn í Lengjubikarnum sunnudaginn 18. febrúar kl. 15:00 þegar Gunnar Oddsson og félagar í Þrótti Reykjavík koma í heimsókn í Reykjaneshöllina. Önnur lið í riðlinum eru Breiðablik, Fjölnir, Fram, Akranes, ÍBV og KR. Þetta er nú fínt tækifæri fyrir karlmennina, eftir að hafa vaskað upp eftir matinn sem þeir elduðu sjálfir, að bjóða konunni á rúntinn og koma við í Reykjaneshöllinni að sjá liðið etja kappi við Þróttarana á sunnudaginn. Það er jú konudagurinn.
Þess má geta að kvennalið Keflavíkur spilar fyrsta leik sinn föstudaginn 2.mars gegn Val í Egilshöllinni kl. 21:00.