Lengjubikarinn aftur af stað
Eftir vel heppnaðar æfingaferðir til Spánar eru liðin okkar að fara aftur af stað í Lengjubikarnum hér heima.
Á föstudag leikur kvennaliðið við Hauka í B-deild keppninnar. Liðin leika á Ásvöllum í Hafnarfirði og hefja leik kl. 18:00. Okkar lið vann ÍR örugglega í síðasta leik en hafði áður tapað tveimur fyrstu leikjum sínum. Hauka-stúlkur eru með einn sigur og eitt tap í riðlinum. Það er Guðrún Fema Ólafsdóttir sem dæmir leikinn en aðstoðardómarar eru Atli Már Sigmarsson og Jovana Cosic.
Karlaliðið leikur á laugardaginn þegar lið ÍBV kemur í heimsókn en liðin leika í Reykjaneshöllinni kl. 14:00. Eyjamenn eru með 10 stig í riðlinum en okkar menn eru með 15 stig og hafa þegar tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum keppninnar. Dómari leiksins verður Þorvaldur Árnason, aðstoðardómarar Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson en eftirlitsmaður er Ragnar Örn Pétursson.
Við hvetjum stuðningsmenn til að mæta á leikina og styðja okkar fólk.