Lengjubikarlaugardagur framundan
Það verður sannkallaður Lengjubikardagur á morgun, laugardag, en þá leika bæði karla- og kvennaliðin okkar í Lengjubikarnum í Reykjaneshöllinni.
Í karlaflokki leika Keflavík og Þróttur kl. 12:00. Keflavík er sem stendur í 4. sæti í riðli 3 og getur með sigri komist upp að hlið KR og Breiðabliks sem eru í efstu sætunum. Þróttarar hafa spilað þrjá leiki, gert jafntefli við HK og tapað fyrir Breiðablik og ÍBV. Dómari leiksins verður Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Frosti Viðar Gunnarsson og Eðvarð Atli Bjarnason og eftirlitsmaður KSÍ er Eyjólfur Ólafsson.
Stelpurnar fylgja svo í kjölfarið og leika gegn ÍR kl. 14:00. Liðin hafa bæði leikið tvo leiki í riðlinum og tapað báðum. Það verður því eitthvað undan að láta þegar þessi lið mætast. Dómari í þessum leik verður Ásgeir Þór Ásgeirsson og aðstoðardómarar hans þeir Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson og Ægir Magnússon.
Stuðningsmenn eru hvattir til að kíkja í Reykjaneshöllina og styðja okkar fólk.