Fréttir

Knattspyrna | 1. júlí 2006

Lilleström sigraði 4-1

Okkar menn lágu 1-4 fyrir norska liðinu Lilleström í 2. umferð InterToto-keppninnar á útivelli.  Heimamenn byrjuðu með látum og pressuðu stíft.  Þeir komust yfir á 25. mínútu þegar Björn Helge Riise skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri.  Skömmu síðar var staðan orðin 2-0 en þá skoraði Ástralinn Kasey Wehrman með glæsilegu skoti úr aukaspyrnu.  En okkar strákar gáfust ekki upp og Stefán Örn minnkaði muninn á 37. mínútu með góðu skoti.  Fyrsta mark Stefáns í Evrópukeppni, mikilvægt útivallarmark og staðan ekki svo slæm.  En Norðmennirnir kláruðu leikinn með tveimur mörkum í seinni hálfleik.  Fyrst skoraði Wehrman með skalla og Magnus Mykelbust bætti fjórða markinu við alveg undir lok leiksins.  Fullstórt tap og úrslitin verða að teljast nokkur vonbrigði.  Það verður því á brattann að sækja í seinni leiknum næsta sunnudag.

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson (Branko Milicevic 74.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Stefán Örn Arnarson (Magnús Þorsteinsson 74.), Guðmundur Steinarsson (Þórarinn Kristjánsson 88.)
Varamenn: Magnús Þormar, Ragnar Magnússon, Viktor Guðnason, Einar Orri Einarsson

Dómari: Ihor Ischenko, Úkraínu
Aðstoðardómarar: Igor Bytskalo og Oleksandr Belorus, Úkraínu
Fjórði dómari: Jan Petter Randen, Noregi
Eftirlitsmaður UEFA: Kaj Østergaard, Danmörku
Áhorfendur: 608


Stefán skorar mark Keflavíkur með góðu skoti.


Og markinu var vel fagnað.
(Myndir: Jón Örvar Arason)