Lítil ferðasaga frá Lúxemborg
Það var syfjaður hópur leikmanna, þjálfara, aðstoðarmanna og fararstjóra Keflavíkurliðsins sem mætti í Leifsstöðina þriðjudaginn 12. júli kl. 05:30. Ferðinni var heitið til Lúxemborgar, nánar tiltekið til Ettelbrück en þar áttum við að spila í UEFA keppninni á fimmtudeginum. Flogið var til Frankfurt og þaðan tekin rúta til Lúx. Komið var á hótelið Du Moulin um kl. 15:00 á staðartíma. Hótelið sem leikmennirnir fengu var um 20 mínútna keyrslu frá Ettelbrück. En fararstjórarnir Rúnar, Oddur og Ási og þeir Kiddi Guðbrands, Jón Örvar og Falur voru á öðru hóteli skammt frá.
Menn komu sér fljótlega fyrir því okkar geðþekki þjálfari Kristján Guðmundsson var búinn að setja á æfingu kl. 17:00. Æfðum á þokkalegum velli í 30 stiga hita og í afskaplega fallegu umhverfi. Létt var yfir hópnum í þessum mikla hita og menn tóku hressilega á því í u.þ.b. eina klukkustund. Miklu vatni var skolað niður sem Óskar og Dói sáu um og höfðu þeir félagar nóg að gera. Falur sá um auma vöðva og kom þeim í stand eins og honum er einum lagið. Eftir æfingu var var liðið drifið upp á hótel og menn komust loksins í sturtu og létu sér líða vel fram að kvöldmat. Menn tóku vel til matar síns og eftir hann slöppuðu menn vel af og spiluðu skák, billiard og sumir tóku sér smá gönguferð um nágrennið á þessum fallega stað. Svo fóru menn að drífa sig í háttinn hver af öðrum og menn hafa örugglega sofnað fljótlega eftir langt og strangt ferðalag + æfingu.
Miðvikudagur 13. júlí
Vaknað snemma og góður morgunverður var á hótelinu sem menn voru ánægðir með eins og allar hinar máltíðaranar sem við fengum í ferðinni. Ákveðið var að fara til höfuðborgarinnar og lagt af stað með rútu um kl. 10:30 og svo tekin lest til Lúxemborgar sem tók ekki langan tíma. Menn skiptust í hópa og höfðu mikið að skoða. Borgin var skoðuð á einhverjum fjórum tímum og menn ánægðir með það sem þeir sáu í þessari gullfallegu borg. Lagt af stað heim á hótel um kl.16:30 með lestinni og æfing átti að hefjast á vellinum sem við áttum að spila á daginn eftir kl.18:30. Mætt var á völlinn rétt fyrir 18:30 í 35 stiga hita sem var alla að lama nema þessa Lúxara sem voru komnir til að horfa á okkur en þar voru m.a. nokkrir leikmenn Etzella mættir. Æfingin var erfið bæði fyrir leikmenn vegna gífurlegs hita og þjálfara sem voru að peppa mannskapinn upp og leggja á ráðin fyrir morgundaginn. Kristján þjálfari hélt þrumandi ræðu yfir mannskapnum á miðri æfingu og menn tóku virkilega við sér það sem eftir var. Þetta var erfið æfing fyrir alla, leikmenn og þjálfara. Kristján þjálfari talaði við menn eftir æfingu og allir voru staðráðnir að gera sitt besta... fyrir KEFLAVÍK. Menn voru þreyttir þegar heim á hótel var komið og sturtan beið leikmanna sem voru orðnir ansi lúnir eftir daginn. Góður kvöldverður beið okkar allra og menn nutu kvöldsins í spili og spjalli.
Fimmtudagur 14. júlí - LEIKDAGUR.
Menn fengu að sofa aðeins lengur þennan dag enda mikil vinna framundan. Létt morgunæfing kl. 10:30 þar sem farið var yfir hreyfingar liðsins og lokahönd lögð á leik okkar mann. Léttur hádegismatur 12:30 sem samanstóð af pasta og tveimur útgáfum af sósu. Leikmenn hvíldu sig vel fram til 16:00, sumir sváfu á meðan aðrir spiluðu billjarð eða tölvuleiki. Kristján þjálfari dreifði huganum með því að ganga fleiri kílómetraleið upp að fornum kastala í steikjandi hitanum og sól. Óttuðust menn að hann myndi missa af vélinni morguninn eftir, í það minnsta myndi hann ekki ná leiknum. Betur fór þó en á horfðist og kallinn mætti vel fyrir klukkan 16:00 til þess að tilkynna byrjunarliðið og setja leikmenn í rétt hugarástand fyrir leikinn. Er komið var niður á völl voru áhangendur liðanna farnir að týnast á völlinn og stemmning að myndast. Gríðarlegur hiti var á vellinum og var það eins og að ganga á vegg fyrir leikmennina er þeir komu út úr búningsklefanum í leikinn. Skemmst er frá því að segja að strákarnir stóðu sig frábærlega í leiknum og gjörsigruðu Etzella-menn 4-0. Eins og gengur og gerist í leikjum þurfti að hlúa að leikmönnum á meðan leik stóð og var óttast um afdrif Fals sjúkra og Jóns Örvars forráða í einni ferðinni þar sem þeir skiluðu sér ansi seint á bekkinn aftur. Ekki hefði veitt af súrefniskútum á bekkinn í það skiptið! Leikmenn fögnuðu sigrinum heima á hóteli með sameiginlegri máltíð og tóku á móti rútu fullri af stuðningsmönnum Keflavíkurliðsins sem vildu berja stjörnur sínar augum. Þreyttir kappar sofnuðu upp úr miðnætti.
Föstudagur 15. júlí - Heimkoma.
Rútan fór frá hótelinu 9:30 og hélt hún áleiðis til Frankfurt þar sem flogið var til London, Stanstead rétt eftir hádegið. Litlu munaði að yngstu leikmennirnir, Óli Jón og Einar Orri, hefðu orðið eftir á hótelinu en þeir steinsváfu þegar rútan átti að fara af stað, feit sekt. Að sjálfsögðu kenndu þeir hvor öðrum um að hafa ekki vakið hvorn annan, hentu þeir fötunum sínum ofan í tösku í hasti og ruku út í rútu án þess að losa sig við morgunpissið áður! Voru þeir í miklum spreng er komið var á flugvöllinn í Frankfurt 3 tímum síðar!!! Flugferðin gekk vel en í London þurfti mannskapurinn að bíða í 6 klukkutíma eftir flugi til Íslands. Flestir leikmanna fóru inn til London og börðu helstu götur þeirrar stórborgar augum á meðan aðrir drukku kaffi á flugstöðinni. Gott að koma heim og lenda í Keflavík rétt fyrir kl. 23:00 og vitandi það að aðeins væru 10 tímar í næstu æfingu.
Frábær ferð á enda.
Myndir og texti: Jón Örvar Arason