Liverpool-ferð 3. flokks
Nú er eftirminnilegu knattspyrnusumri að ljúka í Keflavík og óhætt er að segja að uppskeran sé glæsileg, bæði hjá karla- og kvennaliðinu. En það var einnig nóg að gera hjá yngri flokkunum og þar má segja að hápunktur sumarsins hafi verið ferð 3. flokks kvenna á Knowsley-knattspyrnumótið í Liverpool. Hér á eftir fer ferðasagan sem Elis Kristjánsson þjálfari tók saman og einnig nokkrar myndir frá ferðinni og mótinu.
Stelpurnar á leið á setningarathöfnina.
Mánudaginn 26. júlí s.l. fór 3. flokkur kvenna til Englands, nánar til tekið til Liverpool og tóku þátt í Liverpool-Knowsley International Youth Soccer Tournament þar í borg.
Stelpurnar mættu snemma þennan morgun og gáfu sér góðan tíma í fríhöfninni áður en gengið var um borð í vél Flugleiða. Mikil stemmning hafði myndast í hópnum, enda ekki á hverjum degi sem farið er á knattspyrnumót í mekka knattspyrnunnar. Flugið tók þrjá tíma og rútuferð frá London til Liverpool fimm tíma.
Um kvöldmatarleytið að staðartíma var loks komið á áfangastað, University of Liverpool, sem eru stúdendagarðar og dvalarstaður okkar í þessari vikuferð. Hver stelpa hafði sérherbergi en þær voru samt ekki lengi að para sig saman, tvær til fjórar í eitt og sama herbergið. Auðu herbergin voru nýtt sem farangurgeymslur. Þegar búið var að koma sér fyrir voru stelpurnar ekki lengi að skella sér í æfingafötin, út á grasflötina bak við skólann og þar var ferðaþreytantekin úr sér. Snemma var gengið til náða því strax næsta morgun átti að hefja fyrsta leik í mótinu.
Þriðjudagurinn rann upp og eftir morgunverð var gert klárt í fyrsta leik. Farið var með rútu sem tók um tíu mínútur á keppnissvæðið sem hafði á að skipa sextán knattspyrnuvöllum í ýmsum stærðum. Spenningurinn var í algleymingi þegar kom að fyrsta leik og sumar með magaverki. Fyrstu mótherjar okkar voru People to People frá U.S.A. Ekki fengu stelpurnar mikla mótspyrnu í þessum leik sem lyktaði 12-0 fyrir okkur,en það má geta þess að aðeins einn leikur var spilaður á dag. Um kvöldið var síðan farið á Boundry Park í Oldham og horft á heimamenn taka á móti Bolton.
Næsta morgun var leikið gegn Wirral Hawks sem er lið í úthverfi Liverpool. Stelpurnar lentu undir snemma leiks en komu sterkar til baka og sigruðu 4-1. Eftir hádegi var farið í skoðunarferð á Anfield, komið var við í Liverpool búðinni á vellinum þar sem margar hverjar gerðu hreint frábær kaup á búningum og fleiru. Um kvöldið var síðan formleg setning á mótinu þar sem borgarstjóri Liverpool setti mótið.
Á fimmtudeginum var spilað gegn Athlone Girls frá Írlandi. Stelpunum nægði jafntefli í þessum leik til að sigra riðilinn og fá um leið léttara lið í undanúrslitum ef hægt er að kalla eitthvað létt í þessu. Ekki gekk það eftir því leikurinn tapaðist 1-0 en við áttum svo sannarlega skilið að fá eitthvað út úr þessum leik. Um kvöldið var síðan farið í keilu.
Ekkert var spilað á föstudeginum og því skellti hópurinn sér til Manchester í skoðunar- og verslunarferð. Byrjað var í Trafford Center sem er geysilega stór verslunarmiðstöð. Þar eyddu stelpurnar þremur tímum í búðarráp. Þegar því lauk var haldið á Old Trafford og sá völlur skoðaður hátt og lágt, að sjálfsögðu var komið við í þeirra verslun en engin reyfarakaup þó gerð. Þegar til baka var komið fóru stelpurnar að gera sig klára á diskótek sem var ábyggilega það leiðinlegasta diskó sem þær hafa farið á.
Laugardagurinn rann upp og nú var það lið Mei Long frá Shanghai í Kína sem átti að berja á í undanúrslitum. Þetta lið var feykilega sterkt og var talað um það á meðal þjálfara annarra liða að þetta lið væri töluvert eldra en sá aldurshópur sem við spiluðum í, þvílíkir massar sem að þessar stelpur voru. Okkar stelpur báru allt of mikla virðingu fyrir þessu liði og voru líka hálf hræddar við þær, enda steinlágu þær 10-1. Þess má geta að þetta lið Mei Long sigraði þetta mót en úrslit þessa leiks þýddu að við myndum spila um þriðja sætið á mótinu.
Í leik um þriðja sætið á sunnudeginum lékum við gegn EPS Espoo frá Finnlandi. Þrátt fyrir að hafa tapað stórt deginum áður komu stelpurnar gífurlega ákveðnar og grimmar til leiks, þriðja sætið ætluðu þær að fara með heim. Stelpurnar kláruðu þennann leik með stæl 4-0 og tryggðu sér þar með bronsið í mótinu.
Á mánudeginum var síðan haldið heim á leið, við tók löng rútuferð og flug. Lent var í Keflavík seint um kvöld og fengu stelpurnar virkilega hlýjar og skemmtilegar móttöku í Leifsstöð.
Ferð þessi tókst með glæsibrag og voru stelpurnar mjög ánægðar með hana, lifir þessi ferð væntanlega lengi í þeirra minningu um ókomin ár.
Ekki má gleyma þætti þeirra Ólafíu Ásbjörnsdóttur og Sigrúnar Sigvaldadóttur sem voru fararstjórar í þessari ferð en þær eiga stóran þátt í að gera þessa ferð ógleymanlega fyrir stelpurnar.
Mörk Keflavíkur í þessu móti gerðu:
Karen Sævarsdóttir: 11
Eva Kristinsdóttir: 6
Andrea Frímannsdóttir: 3
Birna Marín Aðalsteinsdóttir: 1
Frá setningunni.
Frá setningunni.
Elísabet og Andrea, rétt klæddar!
Stelpurnar hvíla lúin bein í skólanum sem var samastaður liðsins.
Keflavík og kínverska liðið Mei Long.
Keflavík og finnska liðið EPS Espoo.
Frá verðlaunaafhendingunni.
Keflavíkurliðið með verðlaun sín.
Elis Kristjánsson þjálfari og fyrirliðinn Eva Kristinsdóttir með bikarinn góða.
Ánægður hópur ásamt fararstjórunum frábæru, Sigrúnu Sigvaldadóttur og Ólafíu Ásbjörnsdóttur.