Lokahóf Knattspyrnudeildar
Lokahóf Knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldið á Ránni s.l. föstudagskvöld. Óhætt er að segja að uppskeran eftir sumarið var ríkuleg hjá okkar fólki í 2. flokki kvenna, meistaraflokki kvenna og meistaraflokki karla. 2. flokkur karla var með sameiginlegt lið með Njarðvík; eftir góða stöðu liðsins framan af sumri vorum við nálægt því að komast í A-riðil en gáfum eftir á endasprettinum.
Í 2. flokki karla voru eftirfarandi leikmenn heiðraðrir. Besti félaginn var kosinn Guðmundur Þórðarsson markvörður, efnilegasti leikmaðurinn Þorsteinn Atli Georgsson og besti leikmaður sumarsins var kjörin Árni Þór Ármannsson. Þjálfari var Kristinn Guðbrandsson.
Hjá 2. flokki kvenna var leikið í 7 manna liðum; liðið náði frábærum árangri og varð Íslandsmeistari í sínum flokki. Besti félaginn í 2. flokki kvenna var kjörin Inga Lilja Eiríksdóttir, efnilegasti leikmaðurinn Birna Bergþórsdóttir og best var kosin Alexandra Cruz. Þjálfari var Hulda Jónsdóttir.
Meistaraflokkur kvenna náði einnig frábærum árangri og varð liðið deildarmeistari 1. deildar kvenna með því að leggja Skagastúlkur í úrslitum 2-1 á Varmá. Hjá meistaraflokki kvenna var Björg Ásta Þórðardóttir kjörin besti félaginn, efnilegasti leikmaðurinn Mist Elíasdóttir og besti leikmaðurinn var kjörinn Guðný Þórðardóttir. Þess má geta að Björg Ásta var einnig valin til að leika með landsliði Íslands í sumar. Þjálfari var Ásdís Þorgilsdóttir.
Meistaraflokkur karla náði gríðarlega góðum árangri. Þar stendur upp úr bikarmeistaratitill liðsins en þessum næst eftirsóttustu verðlaunum í íslensku íþróttalífi hampaði liðið á Laugardalsvelli 2. október s.l. með því að leggja KA að velli 3-0 í úrslitaleik. Þá hafnaði liðið í 5. sæti Landsbankadeildarinnar sem er viðunandi árangur en þar vantaði lítið á að árangurinn yrði betri. Í kjöri bestu leikmanna var Magnús Sverrir Þorsteinsson kjörinn besti félaginn, Ingvi Rafn Guðmundsson efnilegasti leikmaðurinn og besti leikmaður meistaraflokks var kjörinn Stefán Gíslason. Þjálfari meistaraflokks karla var Milan Stefán Jankovic og honum til aðstoðar Jakob Már Jónharðsson og Rajko Stanisic.
Fjölmörgum aðilum var þökkuð störf fyrir fótboltann í sumar og fengu allir veglega gripi því til staðfestingar. Óhætt er að segja að hófið hafi verið stórglæsilegt og í stíl við fallegan veitingastað eins og Ráin er. Á dagskránni fyrir utan verðlaunaafhendingar var sjávarréttahlaðborð og skemmtiatriði. Laddi lét móðan mása, leikmenn meistaraflokks kvenna sýndu dans á heimsmælikvarða, veislustjórinn Ísólfur Gylfi stóð sig með stakri prýði og var Stefán Gíslason leikmaður ársins honum innan handar þegar kom að söngatriðunum. Botninn í kvöldið sló hljómsveitin Sixties og stóð gleðskapurinn fram eftir morgni.
Knattspyrnudeild Keflavíkur vill færa öllum sem þátt áttu í því að gera Lokakvöldið jafn glæsilegt og ánægjulegt og raun bar vitni bestu þakkir fyrir frábæran stunðing. Stuðningsmönnum öllum, samstarfs-og styrktaraðilum eru færðar góðar þakkir fyrir gríðarlegan og ómetanlegan stunðning við knattspyrnuna í Keflavík nú sem áður. ási
Myndir: Jón Örvar
Guðný var valin best hjá kvennaliðinu.
Stefán var bestur hjá körlunum.
Glæsilegt verðlaunaborð.
Sjávarréttahlaðborðið var glæsilegt.
Ísólfur Gísli Pálmason var veislustjóri.
Flottur í Keflavíkurbúningnum ... Laddi.
Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari meistaraflokks kvenna.
Glæsilegt sýningaratriði frá stúlkunum.
Gestir skemmtu sér konunglega.
Tóti markahæstur hjá strákunum.
Og Guðný hjá stelpunum.
Og svo tók Stefán lagið Nína.