LOKAÚTKALL - Allir á völlinn!
Á dögunum birtum við útkall til stuðningsmanna Keflavíkur fyrir leikinn gegn FH í Kaplakrika. Eins og við mátti búast brást okkar fólk vel við, fjölmennti í Fjörðinn og stóð þétt við bakið á strákunum okkar. Við þökkum frábæran stuðning þó úrslitin hafi ekki verið eins og við vonuðumst eftir. Nú er komið að lokaútkalli sumarsins því nú er aðeins einn leikur eftir á tímabilinu og hann hefur ALLT að segja. Á laugardaginn kl. 16:00 leikum við gegn Fram á heimavelli okkar í Keflavík. Við þurfum sigur í leiknum og þá er Íslandsmeistaratitillinn okkar.
Nú skorum við aftur á Keflvíkinga að mæta á völlinn. Stuðningurinn í sumar hefur skipt liðið miklu máli og átt stóran þátt í velgengni þess. Nú þurfa strákarnir hvatningu og stuðning frá fyrstu mínútu og þar til yfir lýkur á laugardaginn. Nú mætum við öll og tökum vini og vandamenn með okkur, pabba og mömmu, afa og ömmu, frænkur og frændur... Það væri líka til að auka stemmninguna ef allir væru bláklæddir á pöllunum og sýndu þannig samstöðu og stuðning við Keflavík.
Við bendum á að það má búast við metfjölda á völlinn á laugardaginn. Það er því betra að mæta tímanlega til að missa ekki af neinu og þá er líka hægt að byggja upp stemmningu fyrir leikinn. Miðar verða seldir í forsölu á skrifstofu Knattspyrnudeildar við Sunnubraut kl. 14:00-18:00 á föstudag. Miðaverð í forsölu er 1.200 kr. en á leikdegi kostar miðinn 1.500 kr. Við hvetjum fólk til að tryggja sér miða í tíma og á góðu verði og losna um leið við biðraðir á leiknum.
Að lokum: njótum dagsins og styðjum okkar lið. ÁFRAM KEFLAVÍK!!!