Loksins heimasigur!
Eftir rysjótt gengi í heimaleikjum sumarsins vann Keflavík góðan sigur á Frömurum í síðasta heimaleik sumarsins. Lokatölur leiksins urðu 2-1 og þar með er Keflavíkurliðið enn með í baráttunni um hið margfræga 3ja sæti en Fram er enn í fallhættu þegar ein umferð er eftir af Landsbankadeildinni.
Það voru framherjarnir Hörður Sveinsson og Guðmundur Steinarsson sem skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Þá léku okkar menn með strekkingsvind í bakið og pressuðu stíft að marki gestanna. Liðið fékk nokkur góð færi og Gunnar markvörður Framara varði nokkrum sinnum glæsilega. Mörkin voru ekki ósvipuð; fastar sendingar utan af kanti og fastur skalli af miðjum vítateignum. Fyrst gaf Jónas glæsilega sendingu af hægri kantinum sem Hörður skallaði í netið og síðan kom há sending frá Hólmari sem varnarmenn Fram misreiknuðu og Guðmundur stóð einn í teignum og stýrði knettinum laglega framhjá Gunnari. Hvort tveggja góð mörk og vel gert hjá þeim félögum. En þrátt fyrir fjölda færa og stöðuga pressu var munurinn aðeins eitt mark í leikhléi. Strax eftir að Guðmundur hafði skorað annað markið brunuðu Framarar í sókn, sluppu inn fyrir vörnina og Andri Fannar Ottósson skoraði örugglega framhjá Ómari. Um miðjan fyrri hálfleikinn þurfti Issa að yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg og var drifinn á sjúkrahús. Í hans stað kom Einar Orri Einarsson og lék þar með sinn fyrsta deildarleik, aðeins 15 ára gamall.
Hörður skorar fyrra markið í byrjun leiksins.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)
Í seinni hálfleiknum var komið að Framliðinu að leika með vindinn í bakið. Okkar menn voru undir þó nokkurri pressu í upphafi hans en tókst fljótlega að koma sér inn í leikinn og léku skynsamlega. Framarar náðu ekki að skapa sér veruleg færi þrátt fyrir að bæta sífellt fleiri mönnum í sóknina. Vörnin lék vel og Ómar var öruggur í markinu. Keflvíkingar kláruðu leikinn með prýði og unnu sinn annan heimaleik í deildinni. Sá fyrri var gegn KR 26. maí og því var sannarlega kominn tími á sigur á Keflavíkurvelli.
Í síðustu umferðinni heimsækjum við nágranna okkar í Grindavík. Það er ljóst að þar verður barist til síðasta blóðdropa. Grindvíkingar verða að sigra til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í efstu deild og verða jafnframt að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum. Keflavík er nú í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir ÍA og tveimur stigum á undan KR. ÍA og KR mætast einmitt í síðustu umferðinni og það ræðst því í Grindavík og á Skipaskaga hver röðin verður í 3. - 5. sæti Landsbankadeildarinnar.
Keflavíkurvöllur, 11. september 2005
Keflavík 2 (Hörður Sveinsson 8., Guðmundur Steinarsson 34.)
Fram 1 (Andri Fannar Ottósson 35.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustavsson, Guðmundur Mete, Guðjón Antoníusson - Bjarni Sæmundsson (Stefán Örn Arnarsson 80.), Issa Abdulkadir (Einar Orri Einarsson 33.), Baldur Sigurðsson, Hólmar Örn Rúnarsson - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson (Michael Johansson 87.)
Varamenn: Magnús Þormar, Ólafur Jón Jónsson
Gult spjald: Guðmundur Mete (42.)
Dómari: Jóhannes Valgeirsson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Leiknir Ágústsson
Varadómari: Kristinn Jakobsson
Eftirlitsdómari: Geir Agnar Guðsteinsson
Áhorfendur: 615
Guðmundur kemur Keflavík í 2-0.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)