Fréttir

Knattspyrna | 18. september 2009

Loksins sigur

Það var Magnús Sverrir Þorsteinsson sem skoraði eina mark leiksins þegar Keflavík og Grindavík mættust á miðvikudagskvöldið var.  Magnús Sverrir skoraði á 63. mínútu eftir fallega sókn okkar manna.  Jóhannes dómari beitti þá hagnaðarrreglunni af snilld þegar brotið var á Hauki Inga, Jóhann sendi inn fyrir á Hólmar Örn og hann sendi fyrir þar sem Magnús skoraði af stuttu færi.  Keflavík að vinna langþráðan sigur og menn ættu að taka gleði sína á ný.

Þegar flautað var til leiks voru vallaraðstæður slæmar, blautur og þungur völlur.  Keflavík byrjaði mun betur og stjórnaði leiknum lengst af.  Fengu nokkur hálffæri og voru nálægt því að skora.  Grindvíkingar vörðust vel og náðu að halda sóknarmönnum Keflavíkur niðri.  Jafnt í hálfleik í fjörugum leik.  Grindavík byrjaði vel í seinni hálfleik og stjórnaði leiknum fyrstu mínúturnar.  En Keflavík sótti í sig veðrið og og náði að skora eins og áður sagði á 63. mínútu og voru betri eftir það.  Grindavík var þó nálægt því að skora í blálokin þegar Þórarinn Kristjánsson skaut rétt framhjá úr ágætisfæri.  Sanngjarn sigur í höfn og liðið er nú í 5. sæti deildarinnar.

Næsti leikur er sunnudaginn 20. september kl. 17:00 gegn Þrótti á Valbjarnarvelli.  Og stóra spurningin er... tekst Keflavík að vinna leik á útivelli í ár?!  Sjáumst á sunnudaginn, stuðningsmenn góðir .

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson,  Jóhann B. Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Haraldur Freyr Guðmundsson (Jón Gunnar Eysteinsson 75.), Magnús S. Þorsteinsson (Hörður Sveinsson 90.), Hólmar Örn Rúnarsson fyrirliði, Haukur Ingi Guðnason (Guðmundur Steinarsson 87.).
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Nicolai Jörgensen, Sigurbergur Elísson, Sverrir Þór Sverrisson.
Áhorfendur: 767.
Dómari: Jóhannes Valgeirsson.


Jóhann Birnir var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með leyfi:
,,Ég man ekki einu sinni hvenær við unnum síðast. Það var á þessu ári var það ekki?" sagði Jóhann Birnir Guðmundsson leikmaður Keflvíkinga í léttum tón við Fótbolta.net eftir 1-0 sigur liðsins á Grindavík í Pepsi-deildinni í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Keflavíkur síðan í júlí en fyrir leikinn í kvöld hafði liðið leikið sjö leiki án sigurs.
,,Fyrri hálfleikurinn var góður hjá okkur en við duttum aðeins niður í seinni hálfleik, sérstaklega í byrjun. Síðan komumst við yfir og þá fórum við að halda þessu og eitthvað leiðinlegt."

Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði eina markið en það kom eftir gott spil þar sem að Jóhann Birnir kom við sögu.
,,Markið kom eftir flotta sókn og gott spil. Þetta var ein af fáum sóknum sem var eitthvað almennilegt spil í."

Jóhann Birnir er nýkominn af stað aftur eftir að hafa kinnbeinsbrotnað. Hann lék með grímu í byrjun leiks í dag en tók hana síðan fljótlega af.
,,Ég kinnbeinsbrotnaði og fór í aðgerð fyrir fimm vikum. Það var sagt að það tæki 4-6 vikur að gróa þannig að það er á mörkunum að ég þurfi að vera með hana en það er þægilegra að vera ekki með hana," sagði Jóhann Birnir að lokum við Fótbolta.net.


Haraldur og Ondo í baráttunni.  Jóhannes dómari fylgist vel með.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)