Loksins sigur gegn Breiðablik
Keflavíkurstelpur sýndu gestum sínum úr Kópavogi enga miskunn þegar þær löguðu þær í kvöld 2-1 á Keflavíkurvelli í kvöld. Liðin hafa háð marga spennandi leiki undanfarin þrjú ár án þess að Keflavík hafi náð að sigra Blika. En í kvöld varð breyting þar á og var sigurinn fyllilega verðskuldaður. Í kvöld lék nýr leikmaður með liði Keflavíkur en það er stúlka að nafni Una Harkin. Hún kemur frá Crewe Alexandra og er fastamaður í norður-írska landsliðinu. Við bjóðum hana velkomna til Keflavíkur.
Vesna skoraði fyrra markið og er hér í baráttu við leikmann Blika.
(Mynd: Þorgils / Víkurfréttir)
Var leikurinn til að byrja með mikil stöðubarátta á miðjunni og tóku liðin litla áhættu framávið til að byrja með. Lögðu liðin mikla áherslu á að spila öfluga vörn og voru framlínumenn liðanna oft að kljást við ofurefli. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur var allt annar og tóku Keflavíkurstúlkur öll völd á vellinum. Guðný Þóðardóttir fékk góða sendingu inn fyrir vörn Blika á 46. mínútu og ætlaði að vippa yfir markmann gestanna sem varði vel. Þetta var forsmekkurinn á því sem koma skyldi því á 48. mínútu braust Vesna Smiljovic upp vinstri kantinn og skaut föstu skoti í færhornið án þess að blikar kæmu nokkrum vörnum við, 1-0. Áfram heldu Keflavíkurstúlkur að sækja af mikilli grimmd og á 54. mínútu spiluðu þær skemmtilega sín á milli. Sóknin endaði með sendingu inn fyrir á Guðnýju Þórðardóttur sem skoraði með góðu skoti, 2-0. Blikarnir virtust vera slegnir út af laginu og áttu erfitt með að hemja duglega sóknarmenn Keflavíkur og vörnin hélt sóknarmönnum Blika alveg niðri með öruggum leik. Breiðablik náði að minnka muninn á 89. mínútu þegar rangstöðuaðferð Keflavíkur brást og Fanndís Friðriksdóttir skoraði, 2-1. En sigur Keflvíkur var þó öruggur og frábært að leggja Breiðablik sem er sannarlega eitt af „stóru“ liðunum í íslenskri kvennaknattspyrnu. Frábær sigur og þrjú stig í höfn í erfiðri baráttu í Landsbankadeild kvenna í ár.
Lið Keflavíkur: Jelena, Anna, Lilja, Björg Ásta, Donna (Ester), Danka, Eva, Björg Magnea, Una, Guðný og Vesna.
Varamenn: Dúfa, Rebekka, Helena og Bryndís.
Næsti leikur er gegn Fjölni á Fjölnisvelli n.k. mánudag kl. 19:15.
Keflavík hefur aðeins einu sinni áður sigrað Breiðablik í efstu deild.
Það var árið 1987 og hér má sjá frásögn úr Morgunblaðinu.