Loksins sigur hjá 2. flokki
Eftir sex klukkustunda keyrslu norður á Akureyri, þann 12. ágúst, voru Keflvíkingar staðráðnir í að gera betur en í síðasta leik. Liðið var þremur stigum á eftir HK í sjöunda sætinu og þurfti nauðsynlega að ná stigi. Leikurinn byrjaði ágætlega því strax á 8. mínútu skoraði Bjössi og kom Keflvíkingum í 0-1. Á 30. mínútu kom svo annað markið, það fallegasta sem hefur sést í sumar og var Árni þar að verki. Bjössi skoraði svo aftur á 42. mínútu og Aron skoraði fjórða mark Keflvíkinga á 45. mínútu. Seinni hálfleikurinn var ekkert síðri og komu fimm mörk á næstu 45 mínútum. Þórsarar skoruðu tvö mörk á þriggja mínútna kafla, á 72. og 75. mínútu , og skyndilega var staðan orðin 2-4. Á 88. mínútu skoraði Bjössi í þriðja sinn og á 90. mínútu gerði Aron sitt annað mark og sjötta mark Keflvíkinga. Í uppbótartíma skoruðu Þórsarar sitt þriðja og síðasta mark. Leikurinn endaði því 3-6, okkur í vil.
Það voru Þórsarar sem voru mun grimmari fyrstu mínútur leiksins og áttu nokkrar sóknir áður en Keflvíkingar uppgötvuðu að leikurinn væri hafinn. Á 8. mínútu átti Ingvi stungusendingu á Bjössa, sem var einn á auðum sjó og setti boltann auðveldlega í markið. ,,Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti”, sagði Garðar Karlsson á bekknum. Skyndilega voru Keflvíkingar komnir yfir, 0-1. Við þetta mark varð meira jafnræði með liðunum og miðjuspil okkar varð betra. Ingvi fékk nánast að dansa með boltann og fékk mikið svæði til að athafna sig. Við það opnaðist öll vörn Þórsara upp á gátt. Mörg færi komu í kjölfarið sem nýttust ekki. Keflvíkingar voru komnir á bragðið. Á 30. mínútu fær Árni boltann á miðjunni, ca. 35-40 frá markinu, og lætur vaða á markið. ÞVÍLÍKT MARK… Boltinn fór í vinkilinn fjær, stöngin inn. Markið er án efa það fallegasta sem hefur sést í sumar á Íslandi. Þess ber að geta að Árni skipti um skó í leiknum til þess að skora markið. Við þetta róaðist leikurinn örlítið og skiptust varnarmenn liðanna á að bægja hættunni frá. Á 42. mínútu gerði Bjössi sitt annað mark í leiknum. Hár bolti kom frá miðsvæðinu og Einar skallaði boltann innfyrir vörn Þórsara. Bjössi var fljótur að átta sig á þessu og vann boltann í návígi við markmann Þórsara og setti hann auðveldlega í netið, 0-3, Keflvíkingum í vil. Einungis þremur mínútum síðar sendi Ingvi boltann inn fyrir vörn Þórsara á Aron, sem var ekki lengi að átta sig á stöðunni og geystist að markinu og skoraði í nær hornið. Staðan orðin 0-4, Keflvíkingum í vil. Í seinni hálfleik voru gerðar breytingar á leikskipulagi Keflvíkinga og við það róaðist leikurinn. Fátt markvert gerðist fram að 72. mínútu. Þórsarar fengu hornspyrnu, Einar gleymdi sér augnarblik og níunda markið eftir hornspyrnu staðreynd. Staðan því orðin 1-4, Keflvíkingum í vil. Þremur mínútum síðar fengu Þórsarar aðra hornspyrnu. Mikill atgangur er í teignum þar sem Bjössi brýtur klaufalega á sér og dæmd var réttilega vítaspyrna. Þórsarar skoruðu auðveldlega. Staðan orðin 2-4, Keflvíkingum í vil og mikil spenna var komin í leikinn á ný. Þórsarar setja mikla pressu á Keflvíkinga, sem nýttu sér stórhættulegar skyndisóknir. Með fimm sóknarmenn reyndu Þórsarar allt sem þeir gátu en skynsamir Keflvíkingar vörðust vel. Á 88. mínútu skoraði svo Bjössi sitt þriðja mark, sem var glæsilegt. Vann boltann af varnarmanni, “klobbar” hann í leiðinni, geystist fram og “klobbar” einnig markmanninn og setti boltann auðveldlega í markið. Staðan orðin 2-5, Keflvíkum í vil. Á 90. mínútu fá Keflvíkingar aukaspyrnu. Bjössi tekur spyrnunna, sem hrekkur af veggnum og til Árna, sem tók skotið. Markmaður Þórsara ver skotið glæsilega en Aron var réttur maður á réttum stað og setti boltann í autt markið. Staðan orðin 2-6, Keflvíkingum í vil. Í uppbótartíma fengu Þórsarar hornspyrnu. Högni reyndi að hreinsa frá en boltinn fór hátt í loft upp og að markinu. Maggi stökk upp og tveir sóknarmenn Þórsara einnig og Maggi missti boltann frá sér. Þórsara nýttu sér mistökin og skoruðu. Lokatölur urðu 3-6, Keflvíkingum í vil, í stórskemmtilegum leik.
Það var allt annað Keflavíkurlið sem sýndi mátt sinn gegn Þórsurum. Erfitt er að velja besta leikmann Keflavíkur þar sem allir léku vel. Þó fór mest fyrir Bjössa og Ömma. Bjössi var sífellt að ógna Þórsmarkinu og Ömmi var sífellt að hirða boltann af sóknarmönnum Þórs. Maggi í markinu greip oft á tíðum vel inní en síðasta mark Þórsara verður að skrifast á hann. Varnarmenn unnu sína vinnu óaðfinnanlega í fyrri hálfleik en í þeim seinni var aðeins slakað á. Miðjumenn voru útum allan völl og greinilegt að þeir eru loksins búnir að finna sitt rétta form. Sóknarmenn fengu mörg færi með einföldum staðsetningum og réttu hugarfari. Hugarfar og leikgleði leikmanna var til sóma í leiknum og greinilegt að allir ætluðu að vinna þennan leik.
Næsti leikur hjá 2. flokknum er á þriðjudaginn 19. ágúst gegn FH á Kaplakrikavelli klukkan 19:00. FH-ingar eru með fullt hús stiga og eru verðugir keppninautar.
Keflavík 3-5-2
Byrjunalið:
1 Magnús Þormar (M)
2 Jóhannes Bjarnason
3 Ögmundur Erlendsson (F)
4 Arnar Halldórsson
5 Fannar B. Gunnólfsson (út ´45)
6 Ingvi Rafn Guðmundsson (út ´68)
7 Árni Þ. Ármannsson
8 Einar Ottó Antonsson
9 Brynjar Magnússon
10 Aron Smárason
11 Björn Bergmann Vilhjálmsson
Varamenn:
12 Guðmundur Þórðarson (M)
13 Högni Þorsteinsson (inn ´68)
14 Garðar Karlsson (inn ´45)
15 Davíð Hallgrímsson
Þjálfari: Jóhann Emil Elíasson
Jóhann Emil Elíasson þjálfari skrifar