Fréttir

Knattspyrna | 26. apríl 2005

Loksins sigur hjá stelpunum

Keflavíkurstúlkur náðu loks að innbyrða sigur í eftir nokkra tapleiki er liðið sigraði Þór/KA/KS, 3-1.  Óhætt er að segja að þær 3. flokks stelpur sem hafa komið að verkefnum meistaraflokks núna á undirbúningstímabilinu hafi stimplað sig rækilega inn og sýna að það góða starf sem unnið hefur verið í yngri flokkunum undanfarin ár er svo sannarlega að skila sér. Við eigum margar stúlkur sem eiga og geta fetað í fótspor þeirra leikmanna í meistaraflokki sem spilað hafa landsleiki. 

En leikurinn var eign Keflavíkur svo til allan leikinn.  Eva Kristinsdóttir skoraði fyrsta mark Keflavíkur með góðum skalla á 22. mínútu.  Guðný Þórðar skoraði úr vítaspyrnu sem hún fiskaði sjálf af miklu harðfylgi á 29. mínútu, 2-0 í hálfleik.  Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar Andrea Ósk skoraði þriðja mark Keflavíkur með góðu skoti. Þór/KA/KS náði að minnka muninn á 55. mínútu en þar við sat.  Keflavíkurliðinu gekk brösuglega að setja fleiri mörk en fékk svo sannarlega tækifærin til þess, en sigur vannst og það skiptir öllu.

Næsti leikur er laugardaginn 30. apríl og verður leikið þá við Þrótt Reykjavík.