Magnús Þórir gerir sumarið upp hjá Fótbolta.net
Hinn stórskemmtilegi knattspyrnuvefur Fótbolti.net hefur undanfarið fengið leikmenn úr Pepsi-deildinni til að gera tímabilið upp frá sjónarhorni síns liðs. Það var Magnús Þórir Matthíasson sem fékk það hlutverk að gera upp sumarið hjá Keflavík og fer frásögn hans hér á eftir.
Jæja þá er sumarið 2010 búið. Okkar hlutskipti þetta árið var 6. sætið og benti formaðurinn réttilega á í ræðu sinni á lokahófinu að Keflavík væri 6.sætis lið eftir að hafa verið þar 5 sinnum á síðastliðnum áratug. Lokahófið var haldið síðustu helgi og var litlu fagnað þar öðru en að Brynjar Örn Guðmundsson fékk silfuskó fyrir næstflest mörk í sumar (3 stykki takk fyrir) og ég fékk verðlaun fyrir að vera efnilegasti leikmaður liðsins annað árið í röð og stefni ég ótrauður á að ná þeim áfanga aftur næsta haust. Staða vallarþular á Sparisjóðsvellinum er laus eftir að vallarþulurinn Óskar Rúnarsson tilkynnti á hófinu að hann væri hættur. Þessi staða er mjög eftirsóknarverð og hefur Jóhann B. Guðmundsson verið orðaður við hana.
Við fórum inn í tímabilið með með miklar væntingar og háleit markmið. Nýtt þjálfarateymi hafði tekið við. Þríeykið frá Hlíðarenda sem saman stendur af þeim Willum, Þór og Björgvin. Willum kom með nýjar víddir inn í hópinn og hugmyndir hans um fótbolta eru komnar töluvert lengra en hjá meðalljóninu. Stundum þurfti túlk fyrir yngri leikmenn liðsins þegar hann var að fara yfir æfingar. Þór kom með honum til halds og trausts en gerðist liðhlaupi um mitt sumar. Hann kom í leitirnar eftir tveggja vikna fjarveru og þá ögn þyngri og olli það því að hnén gáfu sig á síðasta þriðjung sumarsins. Willum og Þór fylgdi einnig mikill meistari, Björgvin. Hann er með kapp og eljusemi á við hákarl og ekki er hægt að finna traustari mann.
Hópurinn hjá okkur breyttist lítið fyrir þetta tímabil. Við misstum færeyingin fljúgandi heim til Færeyja og blekaði norðfirðingurinn gekk til liðs við Fram. Þeir sem komu í þeirra stað voru Undra Steinn, þrekmeistarinn og kokkurinn frá Hafnarfirði og síðast en ekki síst Paul McShane frá Englandi.
Liðið hjá okkur í sumar var flott og reynslumikið. Við byrjuðum mótið af miklum krafti og vorum til alls líklegir. Síðan fór að halla all verulega undan fæti, meiðsli fóru að setja strik í reikninginn. Klassísk afsökun.. Pínlegt tap út í Eyjum og slakur heimaleikur gegn Blikum gerðu sumarið okkar að engu ef svo má að orði komast, vorum í bullandi séns fram að því. Sumarið endaði ágætlega með góðum sigri á Eyjamönnum og er óhætt að segja að það sé allt betra en að sjá TG9 hlaupa inn á Sparisjóðsvöllinn í Keflavík fagnandi Íslandsmeistaratitlinum.
Við sögðum skilið við Njarðtaksvöll í Njarðvík á miðju sumri en þar slógum við í gegn og spiluðum fanta góða leiki. Fólk hafði aldrei séð annan eins fótbolta leikinn í Njarðvík. Sparisjóðsvöllurinn var vígður í byrjun Júlí og tókst okkur ekki að gera hann að þeirri gryfju sem við ætluðum okkur. Okkur tókst ekki að landa sigri þar fyrr en í síðustu tveimur heimaleikjunum, en fram að því höfðum við einnig tekið æfingaleiki á vellinum og ekki tekist að landa sigri í þeim. Það var mjög kærkomið að klára síðustu tvo heimaleikina með stæl og þá sá fólk hversu megnugir við erum.
Raijko Stanisic markmannsþjálfari kvaddi okkur nú á dögunum og verður hans sárt saknað enda búinn að vera hér í mörg á ár og vinna ómetanlegt starf fyrir félagið.
Nokkrir leikmenn félagsins eru með lausa samninga og vonandi verða flestir ef ekki allir áfram hjá félaginu. Hvar annars staðar er betra að vera en í Sunny Kef?
Blikar lokuðu mótinu vel eins og frændi og stórvinur minn Gillz myndi orða það og óska ég þeim til hamingju með það, vel að því komnir piltarnir. Þeir sýndu þar með öðrum félögum hvað það er mikilvægt að vera með góðan innvið og byggja upp á honum, hjartað á réttum stað hjá þeim.
FH-ingar nældu sér í enn einn stóra titilinn eftir öruggan 4-0 sigur á Reykjavíkur stórveldinu þar sem þeir fengu dómarann með sér í lið að mati KR-inga. Innilega til hamingju með það FH-ingar.
Þakka gott fótboltasumar, áfram Kef.
Mattarinn kveður.