Fréttir

Knattspyrna | 26. ágúst 2005

Mainz-menn voru of sterkir

Þátttöku Keflavíkur í UEFA-keppninni lauk á Laugardalsvelli í gærkvöldi þegar Mainz 05 fór með 2-0 sigur af hólmi í leik seinni leik liðanna og samtals 4-0 í leikjunum tveimur.  Eins og reikna mátti með var þýska liðið of stór biti enda um að ræða atvinnumannalið úr þýsku Bundesligunni, einni sterkustu deildarkeppni heims.  Við getum þó verið stolt af frammistöðu okkar manna í  leikjunum; þeir lögðu sig alla fram og gáfust aldrei upp, reyndu að leika góðan fótbolta og voru verðugir fulltrúar Keflavíkur.

Það strax ljóst að Mainz-liðið ætlaði að koma í leikinn af fullum krafti og okkar menn komust lítið áleiðis gegn Þjóðverjunum.  Þýska liðið fékk nokkur færi í fyrri hálfleiknum og skoraði eitt mark.  Ómar varði nokkrum sinnum vel, m.a hörkuskot sem stefndi í bláhornið og dauðafæri þegar leikmaður gestanna stóð einn á markteigshorninu.  Markið kom á 26. mínútu þegar Michael Thurk skoraði glæsilegt mark.  Hann tók þá við fyrirgjöf frá hægri, tók boltann laglega niður og sendi hann efst upp í fjærhornið.  Ekki tókst Keflavíkurliðinu að skapa sér mörg færi í fyrri hálfleiknum.  Tvisvar skapaðist hætta við mark gestanna.  Fyrst kom sending inn fyrir vörnina eftir skyndisókn en markvörður Mainz kom æðandi út úr vítateignum og hreinsaði áður en Hörður komst í boltann.  Hólmar lék svo laglega í gegnum vörnina en færið var orðið þröngt og skot hans fór yfir.  Staðan í hálfleik 0-1 og ljóst að möguleikar okkar voru orðnir frekar litlir.

Leikurinn var daufari í seinni hálfleiknum, Þjóðverjarnir höfðu leikinn í hendi sér en okkar menn reyndu þó að sækja á þá.  Branko og Símun komu inn á en Guðmundur Steinars meiddist strax í upphafi leiksins og varð að fara út af í hálfleik.  Betur gekk að halda boltanum og þeir Branko og Símun áttu nokkra góða spretti upp vinstri kantinn.  Ekki gekk þó að skapa færi og leikurinn fjaraði út.  Heldur fór að draga af Keflavíkurliðinu þegar leið á leikinn og undir lokin bætti Tom Geißler við öðru marki.  Eftir laglega sókn upp vinstri kantinn kom fyrirgjöf sem vörninni tókst aðeins að skalla út í teig.  Þar tók Geißler boltann niður, sneri sér við og skoraði með laglegu skoti neðst í bláhornið.  Fallegt mark og úrslitin 2-0.


Ómar grípur boltann örugglega en hann átti frábæra leiki gegn Mainz.
(Mynd: Eygló Ejólfsdóttir)

Þó niðurstaða viðureignarinnar við Mainz komi kannski ekki á óvart getum við verið ánægð með hana.  Tveir fínir leikir gegn sterku liði sem fara í reynslubankann.  Þó við hefðum kannski kosið að ná skoti á mark í gærkvöldi var gaman að fylgjast með leiknum á góðum velli og í ágætu knattspyrnuveðri og áhorfendur skemmtu sér vel.  Stuðningsmenn Mainz settu mikinn svip á leikinn.  Eins og þýskir áhorfendur gera gjarnan stóðu þeir allan leikinn og studdu sína menn með köllum og söng.  Eins og stundum áður var það PUMA-sveitin og harðir stuðningsmenn í kringum hana sem sáu að mestu um stuðninginn við Keflavíkurliðið en þeir stóðu sig frábærlega.  Þeir kölluðust á við þýsku stuðningsmennina og á köflum skiptust hóparnir á að kalla nafn hins liðsins!  Að lokum komu nokkrir stuðningsmenn Mainz yfir til Keflvíkinganna, tóku þátt í gleðinni með þeim og fóru aftur yfir í sinn hluta stúkunnar með Keflavíkurfána sem þeir veifuðu óspart.

Þátttökunni í UEFA-keppninni er þá lokið og lokabaráttan í Landsbankadeildinni tekur við.  Við getum verið ánægð með keppnina og frammistöðu okkar liðs og hún hlýtur að hvetja liðið og stuðningsmenn til dáða á lokaspretti tímabilsins.

Laugardalsvöllur, 25. ágúst 2005
Keflavík 0
1. FSV Mainz 2 (Michael Thurk 26., Tom Geißler
85.)

Keflavík (4-3-3): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Kenneth Gustavsson, Guðmundur Mete, Issa Abdulkadir (Branko Milicevic 46.) - Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Gestur Gylfason (Stefán Örn Arnarson 75.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson (Símun Samuelsen 46.)
Varamenn: Magnús Þormar, Michael Johansson, Bjarni Sæmundsson, Gunnar Hilmar Kristinsson
Gul spjöld: Issa Abdulkadir (44.), Stefán Örn Arnarson (90.)

Dómari: Bruno Derrien
Aðstoðardómarar: Patrick Reinbold og Christoph Capelli
4. dómari: Bruno Ruffray
Áhorfendur: 881