Fréttir

Knattspyrna | 17. júlí 2003

Malarvöllurinn með nýtt hlutverk

Þeir sem hafa átt leið framhjá knattspyrnuvellinum í Keflavík undanfarið hafa væntanlega tekið eftir því að gamli malarvöllurinn hefur fengið nýtt hlutverk.  Þar er nú að rísa myndarleg kofabyggð og eru það eldhressir krakkar sem negla og saga af miklum krafti.  Hver kofinn af öðrum hefur sprottið upp síðustu daga og krakkarnir hafa nýtt góða veðrið undanfarið og lagt sig öll fram í smíðinni.

Með tilkomu Reykjaneshallarinnar og svæðisins við Iðavelli hefur malarvöllurinn í raun lokið hlutverki sínu sem knattspyrnuvöllur.  Reyndar hefur vellinum ekki verið haldið við þannig að nú er komin ágætisspretta í hluta hans!  Þó að bætt aðstaða sé að sjálfsögðu ánægjuleg og krakkarnir njóti sín vel í kofabyggingunum þá gæti verið að þeir sem eru komnir til vits og ára horfi með ákveðnum söknuði til leikjanna á malarvellinum.  Hver man ekki eftir hörkuleikjum í "Litla bikarnum" gagn Skagamönnum og öðrum hörkuliðum?  Hvað með leikina á sumardaginn fyrsta sem voru yfirleitt leiknir í svo miklum kulda að hver einasti leikmaður, þjálfari, dómari og áhorfandi sem var á leiknum uppskar að minnsta kosti kvef ef ekki flensu?  Og allir "vor"-leikirnir sem voru spilaðir með svellbunka og snjóskafla allt í kringum völlinn?  Eða bílaröðin meðfram girðingunni út að Skólaveginum á meðan þeir hörðustu húktu undir vegg við vallarhúsið eða skemmuna?  Og svo voru auðvitað líka leikir sem fóru fram í blíðskaparveðri og áhorfendur létu fara vel um sig í grasbrekkunni meðfram vellinum...



Kofabyggð á malarvelli

Kofabyggð á malarvelli

Kofabyggð á malarvelli