Fréttir

Knattspyrna | 13. september 2003

Markalaust gegn Víkingum

HilmarKeflavík og Víkingur gerðu markalaust jafntefli í síðustu umferð deildarinnar á Keflavíkurvelli í dag.  Með jafnteflinu tryggðu Víkingar sér annað sæti deildarinnar og sæti í úrvalsdeild að ári.  Keflavík sótti heldur meira lengst af leiknum en náði ekki að skapa sér umtalsverð færi en gestirnir sköpuðu sér í raun hættulegri færi úr skyndisóknum.  Víkingar börðust grimmilega fyrir stiginu sem þeir þurftu úr leiknum og gengu á stundum ansi hart fram vel studdir af fjölmennu stuðningsliði.  Spilið var ekki að ganga upp hjá okkur mönnum og of mikið sást af einstaklingsframtaki sem ekki gekk upp.  Þegar leið að leikslokum sóttu Víkingarnir í sig veðrið og sóttu af hörku og hefðu með smáheppni getað tryggt sér sigur í leiknum.  Það segir sína sögu að stuðningsmenn völdu Ómar Jóhannsson, markvörð, mann leiksins.  Niðurstaðan varð hins vegar jafntefli og Víkingar fögnuðu óspart.  Þetta var eini leikur Keflavíkur í deildinni í sumar sem liðinu tekst ekki að skora mark.  Að leik loknum afhenti Eggert Magnússon, formaður KSÍ, svo Zoran Ljubicic fyrirliða bikarinn fyrir sigur Keflavíkur í 1. deild.

Leikurinn fór fram í ágætisveðri en völlurinn var blautur eftir rigningu um morguninn.  Ein breyting var gerð á Keflavíkurliðinu frá leiknum gegn Njarðvík; Scott kom inn fyrir Ólaf Ívar sem hafði verði að berjast við flensu í vikunni.  Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og áttu strax skalla rétt framhjá eftir vafasamt úthlaup hjá Ómari.  Keflvíkingar náðu síðan ágætum tökum á leiknum og héldu boltanum vel en spilið gekk ekki nógu vel upp og baráttuglaðir Víkingar komu í veg að við næðum að skapa umtalsverð færi.  Upp úr miðjum hálfleiknum fór þó að bregða fyrir ágætum sóknartilburðum og eftir eina glæsilega sókn komst Jónas inn í teig en varnarmenn björguðu á síðustu stundu.  Skömmu síðar fengu gestirnir besta færi hálfleiksins þegar Kristján rann til og missti boltann og sóknarmaður komst einn í gegn en Ómar bjargaði frábærlega með úthlaupi.

Seinni hálfleikurinn þróaðist líkt og sá fyrri; heimamenn meira með boltann en komust lítið áleiðis en Víkingarnir börðust af hörku og áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir.  Þeir fengu álíka dauðafæri og í fyrri hálfleiknum en aftur bjargaði Ómar með frábæru úthlaupi eins og raunar nokkrum sinnum í seinni hálfleiknum.  Okkar menn fengu í raun engin afgerandi færi og virtust missa einbeitinguna eftir því sem leið á leikinn á meðan gestirnir héldu áfram að berjast og sóttu nokkuð ákaft þegar leið að leikslokum.  Ólafur Ívar fékk raunar gott færi rétt fyrir leikslok en skaut vel framhjá úr teignum.  Það verður að segjast eins og er að það hefði ekki verið sanngjarnt hefðu Keflvíkingar stolið sigrinum en leikurinn endaði sem sagt með markalausu jafntefli.  Víkingar og stuðningsmenn þeirra fögnuðu geysilega enda úrvalsdeildarsætið í höfn en Keflvíkingar tóku við bikarnum fyrir sigurinn í deildinni að leik loknum.



Hilmar Bragi / Víkurfréttir


Keflavíkurvöllur, 13. september 2003
Keflavík 0 
Víkingur 0
 

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Hörður Sveinsson 80.), Jónas Guðni Sævarsson, Stefán Gíslason, Scott Ramsay (Ólafur Ívar Jónsson 75.) - Magnús Þorsteinsson (Hjörtur Fjeldsted 90.), Þórarinn Kristjánsson
Varamenn: Magnús Þormar, Sigurður Markús Grétarsson
Gult spjald: Stefán Gíslason (31.)

Dómari: Erlendur Eiríksson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson  og Ólafur Kjartansson
Eftirlitsmaður: Friðgeir Hallgrímsson