Fréttir

Knattspyrna | 18. júlí 2003

Markaleikir hjá 4. flokki karla

Keflavík og ÍR léku í 4. flokki karla á fimmtudaginn.  Keflavík þurfti nauðsynlega á sigri að halda eftir að hafa gert tvö jafntefli í röð.  Keflvíkingar byrjuðu leikinn með miklum látum og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 5. mínútu leiksins eftir glæsilegt samspil, það var Helgi Eggertsson sem skoraði.  Níu mínútum síðar bætti Helgi við öðrum marki og ef fyrra markið var glæsilegt, þá var þetta enn glæsilegra.  Keflavík fékk aukaspyrnu á miðjum vellinum og voru fljótir að taka hana, sendu langa sendingu fram völlinn á Helga, sem tók hann glæsilega niður, lék aðeins áfram og skaut þrumuskoti í fjærhornið.  Undir lok fyrri hálfleiks bætti síðan Viktor Guðnason þriðja markinu við og staðan var 3-0 í hálfleik.  Síðari hálfleikur var varla byrjaður þegar Björgvin Magnússon skoraði fjórða mark leiksins og 5 mínútum síðar skoraði hann aftur og staðan var orðin 5-0.  Það var síðan Einar Orri Einarsson sem skoraði síðasta mark leiksins á 57. mínútu; 6-0 fyrir Keflavík og sigurinn var síst of stór.
 
Það var allt annað að sjá til liðsins í þessum leik heldur en í síðustu tveimur leikjum, menn börðust á fullu, léku mjög vel saman og sköpuðu sér fjöldann allan af marktækifærum og það sem meira var, þeir náðu að nýta færin ágætlega.  Næsti leikur hjá 4. flokki verður á mánudaginn kl 17.00 en þá mætir Keflavík geysisterku liði Stjörnunnar á Iðavöllum.
 
Menn leiksins: Helgi Eggertsson og Natan Freyr Guðmundsson.  Helgi var mjög ógnandi á vinstri kantinum, setti tvö mörk og skapaði oft mikinn usla í vörn ÍR.  Natan stjórnaði vörninni eins og herforingi en vörnin kom í veg fyrir að ÍR náði að skapa sér einhver umtalsverð færi.  Auk þess átti Natan tvær stoðsendingar sem gáfu mark.
 
Leikur B-liðanna var mjög furðulegur.  Keflvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og Davíð Þorsteinsson skoraði strax á 3. mínútu leiksins og hann bætti síðan öðru marki á 15. mínútu leiksins.  Þá var komið að kafla Ómars Hjaltasonar og áður en dómarinn hafði flautað til leikhlés hafði hann skorað þrjú mörk.  Staðan var 5-0 í hálfleik og bara formsatriðið að ljúka leiknum, eða það héldu greinilega leikmenn Keflavíkur sem ættu steinsofandi til seinni hálfleiks.  Þegar hann var hálfnaður voru ÍR-ingar búnir að skora 4 mörk og minnka muninn í eitt mark.  Þá vöknuðu Keflvíkingar af værum blundi og síðustu mínútur leiksins var mjög fjörugar.  Liðin sóttu sitt á hvað og sköpuðu sér fjölda færa en inn fór boltinn ekki og lokatölur urðu 5-4 fyrir Keflavík.
 
Keflavíkurliðið spilaði glimrandi fótbolta í fyrri hálfleik og voru oft á tíðum með sýningu í samspili og leikfléttum.  Það var síðan allt annað lið sem mætti til leiks eftir hlé og voru strákarnir greinilega búnir að gera ráð fyrir auðveldum þremur stigum.  Þeir náðu þó að vakna áður en allt var komið í óefni og héldu haus og náðu þremur stigum.
 
Maður leiksins: Sigús Jóhann Árnason. Lék frábærlega á miðjunni í fyrri hálfleik, vann marga bolta og mataði framherjana með góðum sendingum.  Hann lék í síðari hálfleik í vörninni, barðist vel og lék af mikilli skynsemi.