Fréttir

Knattspyrna | 26. apríl 2004

Markaleikir hjá 4. flokki kvenna

Á laugardag fékk 4. flokkur kvenna stöllur sínar í HK í heimsókn.  Leikið var á malarvellinum í strekkingsvindi en spilað var bæði í A- og B-liðum 

Í leik A-liðanna léku stelpurnar á móti rokinu í fyrri hálfleik.  Þær áttu ekkert  minna í leiknum fyrstu tíu mínuturnar en urðu þá fyrir því óláni að gera sjálfsmark.  Eftir þetta fengum við tvö dauðafæri ein á móti markmanni en boltinn fór yfir markið í bæði skiptin, ekkert annað en óheppni.  HK-stelpur skoruðu síðan mark beint úr aukaspyrnu og staðan í hálfleik 0-2.  Snemma í seinni hálfleik náðum við að minnka muninn þegar Íris Björk Rúnarsdóttir skoraði og við heldur betur inn í leiknum.  En þá dundi ógæfan enn yfir stelpurnar; gestirnir fengu aukaspyrnu og létu skotið vaða á markið.  Vindurinn dró úr hraðanum á boltanum og átti að vera einfalt að skalla boltann burt en ekki  tókst betur til en að hann fór upp í loftið og skrúfaðist einhvern veginn inn í  markið.  Við þetta virtust stelpurnar hreinlega gefast upp og gestirnir bættu á okkur einu í viðbót.  Í fimm marka tapleik skoruðum við sem sagt 3 mörk.

4. flokkur kvenna, A-lið:
Keflavík - HK: 1-4  (Íris Björk Rúnarsdóttir)

Liðsskipan: Zohara Kristín, Ólína Björnsdóttir, Laufey Ósk Andrésdóttir, Fanney Þórunn Kristinsdóttir, Sigurbjörg Auðunsdóttir, Íris Björk Rúnarsdóttir, Sveindís Þórhallsdóttir, Guðrún Ólöf Olsen.

Í leik B-liða var raunar aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi heldur hve stór sigurinn yrði.  Líkt og í fyrri leiknum léku stelpurnar á móti rokinu í fyrri hálfleik.  Um miðjan hálfleikinn skoraði Eyrún Ósk fyrsta  markið en gestirnir náðu að jafna fyrir hlé.  Í þeim seinni var einstefna á mark HK-stúlkna og fyrsta markið í seinni hálfleik kom nokkuð fljótt en það gerði Elsa Hreinsdóttir.  Þegar blásið var til leiksloka höfðu stelpurnar bætt við þremur mörkum í viðbót.

4. flokkur kvenna, B-lið:
Keflavík - HK: 5-1 (Eyrún Ósk Magnúsdóttir 2, Elsa Hreinsdóttir 2, Freyja Hrund Marteinsdóttir)

Liðsskipan: Matthildur Ósk Jóhannsdóttir, Berta Björnsdóttir, Eyrún Ósk Magnúsdóttir, Hildur Jónína Rúnarsdóttir, Freyja Hrund Marteinsdóttir, Jenný Þorsteinsdóttir, Ingibjörg Íris Ásgeirsdóttir, Sigrún Eva Magnúsdóttir, Elsa Hreinsdóttir, Helga Pálsdóttir, Elísa Gunnlaugsdóttir, Helena Sævarsdóttir, Hulda Magnúsdóttir.

Næstu leikir hjá þessum flokkum í Faxanum.

4. flokkur A- og B-lið:
Þriðjudagur 27. apríl: ÍA - Keflavík  (Akranesvöllur)

3. flokkur:
Föstudagur 30. apríl kl.18:00: Keflavík - Breiðablik (Reykjaneshöll)

Elís Kristjánsson, þjálfari