Fréttir

Knattspyrna | 8. ágúst 2003

Markaleikir hjá stelpunum

Það voru miklir markaleikir hjá yngri flokkum kvenna í vikunni og gekk misvel.

Stelpurnar í 4. flokki fengu Breiðabliksstúlkur í heimsókn á miðvikudag og var leikið á aðalleikvangi okkar Keflvíkinga.  Leikið var bæði í A- og B-liðum.  Í A-liðum var við ramman reip að draga gegn feykilega sterku liði Breiðabliks en þær hafa unnið alla sína leiki í A-riðli.  Staðan í hálfleik var 1-1 en í seinni hálfleik settu gestirnir í gír og sigruðu 6-1.

4. flokkur kvenna, A-lið:
Keflavík - Breiðablik: 1 - 6 (Helena Rós Þórólfsdóttir)
Stúlka leiksins: Zohara Kristín Moukkhliss

Líkt og hjá A-liði Breiðabliks er B-lið þeirra einnig ósigrað og engin breyting var þar á eftir leik okkar.  Þessar stelpur eru geysilega sterkar og spila góðan bolta, það þarf stórslys ef þær eiga ekki eftir að hampa titlinum í báðum þessum liðum í lok tímabils.  Okkar stelpur áttu einfaldlega ekkert svar við leik þeirra sem endaði 0-4.

4. flokkur kvenna, B-lið:
Keflavík - Breiðablik: 0 - 4
Stúlka leiksins: Ekki hægt að gera upp á milli


3. flokkur tók á móti FH í gærkvöldi.  Leikið var í 7 manna liðum að Iðavöllum.  Stelpurnar ætluðu sér ekkert annað en sigur í þessum leik.  Þær byrjuðu leikinn á fullri keyrslu og góðri baráttu.  Eftir þriggja mínútna leik kom fyrsta markið og þegar blásið var til hlés höfðu þær bætt við þremur mörkum og staðan 4-0.  Það tók þær alveg um tíu mínutur að komast í gang í seinni hálfleik enda með góða stöðu.  Loks small í gírinn og áður en yfir lauk höfðu þær komið boltanum tvisvar í mark gestanna, lokatölur 6-0.  Eins og áður sagði var baráttan góð og oft brá fyrir góðu spili hjá stelpunum, áttu gestirnir ekkert í okkur að þessu sinni.

3. flokkur kvenna, 7 manna lið:
Keflavík - FH: 6 - 0 (Hildur Haraldsdóttir 2, Heiða Guðnadóttir, Karen Þórsdóttir, Elísabet Björnsdóttir og Sigrún Guðmundsdóttir)
Stúlka leiksins: Bryndís Guðmundsdóttir

Elís Kristjánsson þjálfari skrifar