Markaleikur og sigur gegn Fylki
Okkar menn hófu leik í Lengjubikarnum í gærkvöldi og sigruðu þá Fylkismenn í miklum markaleik í Egilshöllinni. Hér á eftir fylgir frásögn sem fótbolti.net birti um leikinn.
0-1 Patrik Redo
1-1 Ian Jeffs
1-2 Högni Helgason
1-3 Nicolai Jörgensen
2-3 Kjartan Andri Baldvinsson
2-4 Patrik Redo
3-4 Allan Dyring
Nú var að ljúka viðureign Keflavíkur og Fylkis í Lengjubikarnum sem Keflavík hafði sigur í eftir mikla spennu. Leikurinn var þrælskemmtilegur og hafði upp á allt að bjóða, sjö mörk, rautt spjald, misnotaða vítaspyrnu og mikla spennu undir lokin. Lokatölur urðu 3-4 fyrir Keflavík.
Keflvíkingar náðu forystunni eftir rétt rúmlega fimm mínútna leik. Guðmundur Steinarsson átti þá hornspyrnu að marki Fylkis sem Fjalar Þorgeirsson var að grípa en boltinn rann í gegnum hendurnar á honum og fyrir fætur Patrik Redo sem átti auðvelt með að rúlla honum í netið.
Fylkismenn jöfnuðu metin um tíu mínútum síðar. Allan Dyring átti þá skot að marki og boltinn var að fara að rúlla yfir marklínuna þegar Ian Jeffs hjálpaði honum yfir línuna og staðan orðin 1-1.
Eftir um hálftíma leik náðu Keflvíkingar aftur forystunni. Guðmundur Steinarsson vann boltann þá á miðjum vellinum, sendi frábæra sendingu á vinstri kantinn þar sem Patrik Redo var og sendi fyrir markið. Þar kom Högni Helgason aðvífandi og skoraði annað mark Keflavíkur, staðan orðin 1-2.
Um fimm mínútum síðar skoruðu Keflvíkingar svo þriðja markið. Guðmundur Steinarsson átti þá sendingu á bakvörðinn Nicolai Jörgenson sem kom á ferðinni upp vinstri kantinn og sótti að markinu þar sem hann skaut framhjá Fjalari.
Kjartan Andri Baldvinsson náði svo að minnka muninn aftur fyrir Fylkismenn í næstu sókn og staðan í hálfleik var 2-3 Keflavík.
Strax í byrjun síðari hálfleiks skoraði Patrik Redo svo fjórða mark Keflavíkur en ekki leið á löngu áður en Fylkismenn höfðu minnkað muninn aftur. Allan Dyring fékk þá sendingu út á hægri, lék á tvo varnarmenn og sendi boltann frá vítateigshorni beint upp í samskeytin fjær, frábært mark og staðan orðin 3-4.
Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum fékk Hallgrímur Jónasson að líta rauða spjaldið. Boltinn var á vallarhelmingi Fylkis þar sem Keflvíkingar sóttu en línuvörðurinn kallaði á dómarann vegna atviks sem gerðist rétt fyrir utan vítateig Keflvíkur.
Þar taldi hann sig sjá Hallgrím Jónasson slá til Viðars Guðjónssonar sem lá í gervigrasinu. Dómarinn vísaði Hallgrími af velli og dæmdi Fylkismönnum aukaspyrnu sem Peter Gravesen tók rétt við vítateigslínu en skaut yfir markið.
Þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum fengu Fylkismenn vítaspyrnu eftir að Kenneth Gustavsson brá Kjartani Andra Baldvinssyni innan vítateigs Keflvíkinga. Peter Gravesen tók spyrnuna en skaut yfir markið. Lokatölur því 3-4 fyrir Keflavík.
Keflavík: Ómar, Guðjón, Kenneth, Hallgrímur, Nicolai, Brynjar, Maggi Matt, Jón Gunnar, Högni, Redo, Gummi Steinars. Inn á komu í seinni hálfleik þeir Bessi, Sigurbjörn og Garðar Eðvalds.
Nicolai í baráttunni við Peter Gravesen.
(Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð)