Markaleikur og tap gegn FH
Það var líf og fjör á Nettó-vellinum þegar FH heimsótti okkur í 7. umferð Pepsi-deildarinnar. Mörkunum rigndi niður og Keflvíkingar skoruðu reyndar fjögur af þeim sex mörkum sem litu dagsins ljós. Því miður léku tveir þeirra í búningi gestanna að þessu sinni og lokatölur urðu 4-2 fyrir FH. Atli Viðar Björnsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks og fyrrverandi leikmenn Keflavíkur, þeir Guðjón Árni Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson bættu tveimur mörkum við i þeim seinni. Guðmundur Steinarsson minnkaði muninn en skömmu fyrir leikslok skoraði Atli Guðnason enn eitt mark FH. Það var svo Arnór Ingvi Traustason sem minnkaði muninn aðeins á lokamínútunni.
Eftir leikinn er Keflavík í 9.-10. sæti deildarinnar með sjö stig. Næsti leikur er útileikur gegn Fram á Laugardalsvelli miðvikudaginn 20. júní kl. 19:15.
-
Leikurinn var 45. leikur Keflavíkur og FH í efstu deild. Þetta var 20. sigur FH, Keflavík hefur unnið 10 og 15 hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 60-74 fyrir FH.
-
Guðmundur Steinarsson skoraði annað mark sitt í sumar og 76. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild. Arnór Ingvi Traustason er orðinn markahæsti leikmaður liðsins en hann skoraði þriðja mark sitt í sumar. Markið var jafnframt fimmta mark hans í 25 deildarleikjum fyrir Keflavík.
-
Gregor Mohar var aftur í liðinu eftir að hafa misst af fjórum leikjum vegna botnlangavandræða. Árni Freyr Ásgeirsson var í fyrsta skipti í leikmannahópi Keflavíkur í sumar.
-
Ómar Jóhannsson lék sinn 150. deildarleik fyrir Keflavík en sá fyrsti kom gegn Fram í maí 2002. Af þessum leikjum voru 18 í B-deildinni árið 2003 en hina 132 hefur Ómar leikið í efstu deild.
-
Þetta var fyrsti sigur FH í Keflavík síðan árið 2007. Síðan höfðu liðin leikið fjóra leika á heimavelli okkar, Keflavík hafði unnið tvo en tveimur síðustu lokið með jafntefli.
Fótbolti.net
Guðjón Árni Antoníusson, bakvörðru FH, var nokkuð sáttur með leik FH-liðsins í dag í 4-2 sigri á Keflavík. Guðjón Árni skoraði eitt marka FH.
,,Góður sigur. Ágætis leikur, en við fannst við eiga pínu inni, bæði varnarlega og sóknarlega, en jákvætt að vinna og skora fjögur mörk," sagði Guðjón.
,,Ég er búin að spila með FH síðan í vetur þannig maður verður bara gíra sig inn á það. Skrýtið svosem enda búin að vera í Keflavík í 10 ár, en það var gaman. Gaman að koma í sólina í Keflavík."
Nokkrir stuðningsmenn Keflavíkur létu Guðjón stundum heyra það í leiknum og sagði Guðjón vonandi að það væri djók: ,,Ég ætla vona að þetta hafi verið grín. Mér líkar vel við Keflavík og það er bara "passion" í því og það er bara gaman í því."
Fréttablaðið / Vísir
Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavíkur, viðurkenndi að sínir menn hefðu mætt ofjörlum sínum í þessum leik. „Við vissum að FH er með frábært lið sem refsar grimmilega fyrir öll mistök og það kom á daginn. Annað og þriðja markið drógu úr okkur vígtennurnar og við verðum að passa okkur að gera ekki svona mistök gegn þessum sterku liðum."
Hann var engu að síður ánægður með margt hjá sínu liði. „Mér fannst mínir menn berjast mjög vel og þeir mega eiga það að þeir gerðu sitt besta hér í dag. Því miður var það bara ekki nóg."
Aðspurður um meiðsli Guðmundar Steinarssonar svaraði Zoran „Hann meiddist eitthvað lítillega og það var engin ástæða til að taka einhverja sénsa með hann. Það bíður okkar erfiður leikur gegn Fram í næstu umferð og við mætum bara grimmir í þann leik."
Ómar 4, Magnús Þór 5, Jóhann Ragnar 5, Gregor 4, Haraldur 6, Einar Orri 5, Arnór Ingvi 7, Frans 6, Hilmar Geir 4 (Magnús Sverrir -), Jóhann Birnir 5 (Bojan -), Guðmundur 6 (Ísak Örn -).
Morgunblaðið / Mbl.is
Ekki fannst undirrituðum leikmenn FH hafa gríðarlega mikið fyrir hlutunum og voru svona nokkurn veginn á »sjálfstýringu« í átt að sigri. Á meðan mátti sjá litla breytingu á spilamennsku heimamanna síðan í síðasta leik gegn Grindavík og ef út í það er farið þá er lítil breyting á spili liðsins frá tíð þeirra síðasta þjálfara. Halda sér aftarlega á vellinum, dúndra svo tuðrunni fram á framherja sem er reynir að taka við en er líkt og hani í miðju refabúi. Hinsvegar mega Keflvíkingar eiga það að á stuttum köflum inni á milli virðast þeir ná ágætisspili og í þessum leik setja þeir tvö mörk. En það dugar skammt þegar mörk andstæðinga eru fjögur. FH var einfaldlega of stór biti fyrir Keflvíkinga að þessu sinni og Haraldur Freyr Guðmundsson var sammála blaðamanni eftir leik.
»Við töpum hér sanngjarnt í dag gegn betra liði en við erum sem stendur. Fyrir næstu leiki þurfum við hinsvegar að fara að fækka þessum mistökum sem við erum að gera sem mér fannst skapa þessi mörk hjá FH. Þetta eru einstaklingsmistök og einbeitningaleysi hjá okkur og við erum sjálfum okkur verstir í þessu. Ágætisvilji og dugnaður hjá okkur í þessum leik en þetta var bara einn af mörgum leikjum sem við töpum hér í dag,« sagði Haraldur eftir leik.
M: Magnús Þór, Arnór Ingvi, Guðmundur.
Víkurfréttir / VF.is
Fyrrum leikmenn Keflavíkur létu finna fyrir sér í dag þegar Keflvíkingar tóku á móti FH-ingum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Bæði Guðjón Árni Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson náðu að skora á móti fyrrum félögum sínum í 2-4 sigri FH í dag.
FH komst yfir á 28. mínútu með marki frá Atla Viðari Björnssyni og þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Guðjón Árni jók forystu FH-inga eftir klukkutíma leik þegar hann fylgdi eftir aukaspyrnu sem fór í varnarvegg Keflvíkinga. Hólmar Örn skoraði síðan laglegt mark skömmu síðar og FH virtist búið að landa sigri.
Það liðu hins vegar ekki nema rúmar tvær mínútur þangað til að brotið var á Arnóri Ingva Traustasyni leikmanni Keflvíkinga inn í vítateig FH. Víti var því dæmt og Guðmundur Steinarsson fór á punktinn og minnkaði muninn með hnitmiðuðu skoti.
Atli Guðnason tryggði svo FH-ingum sigurinn algerlega með marki rétt fyrir leikslok. Arnór Ingvi náði þó að klóra í bakkann fyrir Keflavík með marki í blálokin úr aukaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.
433.is
Hólmar Örn Rúnarsson, leikmaður FH, var ánægður með 4-2 sigur liðsins gegn sínum gömlu félögum í Keflavík í Pepsi deild karla í dag.
„Mér fannst við bara spila nokkuð vel og gerðum það sem við ætluðum okkur að gera. Við létum boltann rúlla vel og vorum þolinmóðir og uppskárum eftir því,“ sagði Hólmar við 433.is.
„Ég segi nú ekki að mótspyrnan hafi verið lítil, ég vil bara meina að við höfum verið að gera vel.“
Ómar 4, Magnús Þór 5, Jóhann Ragnar 4, Gregor 4, Haraldur 6, Einar Orri 5, Arnór Ingvi 6, Frans 5, Hilmar Geir 4 (Magnús Sverrir -), Jóhann Birnir 5 (Bojan -), Guðmundur 5 (Ísak Örn -).
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 16. júní 2012
Keflavík 2 (Guðmundur Steinarsson víti 71., Arnór Ingvi Traustason 90.)
FH 4 (Atli Viðar Björnsson 38., Guðjón Árni Antoníusson 63., Hólmar Örn Rúnarsson 69., Atli Guðnason 86.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Magnús Þór Magnússon, Jóhann R. Benediktsson, Gregor Mohar, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 77.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Bojan Stefán Ljubicic 84.), Guðmundur Steinarsson (Ísak Örn Þórðarson 77.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Grétar Atli Grétarsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Daníel Gylfason.
Gult spjald: Einar Orri Einarsson (80.).
Dómari: Gunnar Jarl Jónsson.
Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Einar Sigurðsson.
Eftirlitsdómari: Eyjólfur Ólafsson.
Áhorfendur: 650.
Arnór Ingvi skorar í lokin.