Markasúpa í Kópavogi
Það var boðið upp á markaveislu í Kópavoginum í gærkvöldi þegar Keflvíkingar heimsóttu Breiðabliksmenn í 5. umferð Pepsí-deildarinnar. Leiknum lauk með jafntefli 4-4 í hreint mögnuðum leik. Keflavík gerði eina breytingu á sínu liði frá sigurleiknum gegn Fram; Einar Orri kom inn og stóð sig vel í stöðu Jóns Gunnars á miðjunni. Keflavík byrjaði betur og strax á 6. mínútu skoraði Haukur Ingi eftir fallega sókn. Magnús Sverrir bætti öðru marki við á 15 .mínútu með frábæru skoti en Blikar minnkuðu muninn á 18. mínútu. Haukur Ingi átti svo frábært skot úr aukaspyrnu sem Ingvar Blikamarkvörður varði mjög vel. Bæði lið í stuði og sóttu á víxl. Keflavík yfir í hálfleik í bráðskemmtilegum leik.
En fjörið var bara rétt að byrja og það voru skoruð fimm mörk í seinni hálfleik. Alveg hreint ótrúlegur seinni hálfleikur og Blikar byrjuðu mun betur og sóttu stíft að marki Keflavíkur. Blikar jöfnuðu leikinn á 58. mínútu og komust svo yfir tíu mínutum síðar. Þeir bættu svo fjórða markinu við og allt í einu var staðan orðin 4-2 fyrir heimamenn og þeim fjölmörgu stuðningsmönnum Keflavíkur sem mættu á leikinn leist ekkert á blikuna. En Keflvíkingar eru þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og okkar menn komu til baka og jöfnuðu leikinn. Fyrst skoraði Magnús Þórir á 78. mínútu með virkilega góðu marki og hans fyrsta í efstu deild. Magnús Þórir hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður. Það var svo varnarjaxlinn Bjarni Hólm sem jafnaði leikinn sex mínútum fyrir leikslok með góðu marki. Keflvíkingar geta verið sáttir með stigið sem þeir fengu úr því sem komið var. Stórskemmtilegur leikur eins og alltaf þegar þessi sókndjörfu lið mætast enda gátu þjálfararnir Kristján og Ólafur ekki annað en brosað til hvors annars eftir leik.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bojan Stefán Ljubicic 84.), Símun Samuelsen, Einar Orri Einarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Nicolai Jörgensen 65.), Haukur Ingi Guðnason (Magnús Þórir Matthíasson 58.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Tómas Kjartansson, Stefán Örn Arnarson.
Dómari: Eyjólfur M. Kristinsson.
Áhorfendur: 962.
Kristján var í viðtali á fótbolta.net og höfum við leyfi með að birta það hér:
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur taldi lið sitt ljónheppið að sleppa með eitt stig frá Kópavogsvelli í kvöld eðlilega þar sem Blikar sneru leiknum algerlega sér í vil um miðjan seinni hálfleikinn.
,,Ég verð að vera sáttur með stigið. Þegar við erum búnir að fá á okkur fjögur mörk og erum að tapa leiknum með tveggja marka mun þá verðum við að vera sáttir með að hafa náð að koma tilbaka því við vorum að spila mjög illa í seinni hálfleik," sagði Kristján Guðmundsson og hélt áfram. ,,Já, við förum alveg hárrétt inn í leikinn og náum að komast 2-0 yfir og erum í þeirri stöðu að setja þriðja markið. En það slökknar á okkur sem er mjög ólíkt þessu liði, að hleypa andstæðingnum aftur inn í leikinn. Við þurfum aðeins að vinna í þessum málum og við vitum hvernig á að gera það," sagði Kristján þjálfari Keflvíkinga.
Keflvíkingum gengur mun betur á heimavelli þar sem þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína í upphafi móts og hafa ekki fengið mark á sig. Aftur á móti gengur liðinu ögn verr á útivelli og fengið á sig sex mörk í tveimur leikjum.
,,Heimavöllurinn er mjög sterkur. Það er alveg rétt og við spilum feykilega vel heima enda ávallt vel studdir þar. En þetta er í raun bara annar útileikurinn okkar og við byrjum mjög vel í kvöld. Þetta eru allt erfiðir útivellir þannig að þetta er ekkert mál," sagði Kristján Guðmundsson.
Haukur Ingi Guðnason virtist stinga við fæti þegar honum var skipt út af í seinni hálfleik en Kristján Guðmundsson telur piltinn ekki vera meiddan.
,,Nei, nei við þurfum bara að fara varlega með hann. Haukur skilar sínum mínútum og gerir það vel. Hann nær ekki að spila 90 mínútur, við vitum af því og það eru bara meiðsli sem hann hefur átt við að etja undanfarin ár," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga að lokum.
Haukur Ingi kemur Keflavík í 1-0 með laglegu marki.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)