Fréttir

Knattspyrna | 13. maí 2008

Markaveisla og sigur á Íslandsmeisturunum

Það er óhætt að segja að Keflavíkurliðið hafi byrjað keppni í Landsbankadeildinni með glæsibrag þetta árið.  Liðið sigraði Íslandsmeistara Vals í fjörugum markaleik í Sparisjóðsvellinum og það tók innan við mínútu að skora fyrsta markið í mótinu.  Lokatölur urðu 5-3 eftir að gestirnir höfðu skorað tvö mörk á undir lok leiksins.  Hans Mathiesen skoraði strax í upphafi í sínum fyrsta leik og Símun bætti öðru marki við skömmu seinna.  Guðmundur Steinars skoraði úr vítaspyrnu áður en Kenneth skoraði sjálfsmark.  Guðmundur bætti strax við marki og Guðjón kom Keflavík í 5-1.  Hafþór Ægir Vilhjálmsson minnkaði muninn og Bjarni Ólafur Eiríksson átti síðasta orðið með glæsilegri aukaspyrnu.


Víkurfréttir
Keflvíkingar voru í skýjunum í leikslok, enda hafa Valsarar farið illa með þá á Keflavíkurvelli síðustu tvö árin. Meistararnir voru algerlega slegnir út af laginu en nú má öllum vera ljóst að þetta Keflavíkurlið getur hæglega velgt „stóru klúbbunum“ undir uggum.
 
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri gríðarlega sáttur við leikinn. „Þetta var stórt og erfitt próf sem við fórum í og við stóðumst það með glans,“ sagði hann og bætti því við að þeir höfðu lagt mikið upp úr varnarleiknum.
 
Við stefndum að því að koma þeim svolítið í opna skjöldu með þvíað sækja grimmt á þá á fyrstu mínútunum. Þeir eru ríkjandi meistarar og það hefur gengið gríðarlega vel hjá þeim undanfarið þannig að það var lagt upp með að keyra á þá strax.“
 
Þeir komu nú samt aldeilis til baka og breyttu stöðunni í 5-3 og það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Að við séum að fá á okkur tvö mörk og missa niður einbeitinguna eftir að hafa verið einbeittir í öllum leiknum. Ég er ósáttur við það að við skulum hafa fengið á okkur svona mörg mörk.“
 
Kristján sagði að lokum að nú myndi hann hrósa strákunum sínum fyrir frammistöðu sína í leiknum, en lagði þó áherslu á að nú væru þrjú stig komin í hús og það þyrfti að sækja fleiri.


fótbolti.net
Guðmundur Steinarsson fyrirliði Keflavíkur skoraði tvö mörk í dag fyrir lið sitt. Hann gaf sér smá tíma til að ræða við okkur hjá fotbolta.net strax að leik loknum.

Þið fenguð alveg óskabyrjun í dag með því að skora tvö mörk í upphafi leiksins. Þið mættuð rosalega öflugir til leiks?
„Já, þetta var kannski framar björtustu vonum að skora tvö mörk á fyrstu fimm mínútunum sérstaklega á móti Val en kom sér mjög vel þegar uppi er staðið.“

Er þetta það sem koma skal frá ykkur í sumar?
„Já, alveg eins það er samt margt sem við getum lagað í okkar leik. Við fengum á okkur þrjú mörk og það er eitthvað sem við viljum ekki því við getum ekki reiknað með að skora fimm mörk í hverjum einasta leik. Það er ljóst að við þurfum að fara í saumana á því og það er vonandi að við náum að bæta það og halda áfram að skora.“

Næsti leikur á móti Fylkismönnum á fimmtudaginn?
„Jú, mikið rétt og heimaleikur líka. Við leggjum upp með að heimavöllurinn sé sterkur, við spilum alltaf til sigur á heimavelli þannig að við ætlum okkur þrjú stig þar líka.“

Þið hjá Keflavík eigið frábæra stuðningsmenn?
„Algjörlega, þetta eru bestu stuðningsmenn í deildinni og eru búnir að vera það í mörg ár og það er bara ekki hægt að hugsa sér það betra.“ sagði Guðmundur að lokum í góðu veðri í Reykjanesbæ.


gras.is
Willum Þór Þórsson var svekktur eftir 5-3 tapið gegn Keflavík í dag. Willum sagði að þrátt fyrir þetta tap hafi hann verið stoltur af sínum mönnum fyrir það hætta ekki en Keflavík var komið 2-0 eftir aðeins 5 mínúta leik.

„Þeir nýttu tvö fyrstu færin í leiknum og það var einhvern sofanda háttur hjá okkur í þessu og menn seinir til baka. Slíka forgjöf eins og þessa er erfitt að vinna með hér í Keflavík. Það var áberandi hjá okkur hversu lengi við vorum til baka. Engu að síður er ég stoltur af mínu liði þar sem það hætti ekki og gáfu allt í þetta. Það voru augnablik sem unnu með þeim og ég tek það ekki af Keflavíkurliðinu að þeir komu virkilega stemmdir til leiks og verðskulda sigur,“ sagði Willum í samtali við Stöð2 Sport.


Morgunblaðið
Hafi eitthvert lið gert lítið úr spádómum fyrir keppnistímabilið með frammistöðu sinni á laugardaginn, þá voru það Keflvíkingar. Leikur þeirra gegn Íslandsmeisturum Vals, sigurstranglegasta liði deildarinnar, þróaðist með ólíkindum. Þeir voru komnir í 2:0 eftir fimm mínútur og 5:1 stóð á markatöflunni á Keflavíkurvelli þegar 78 mínútur voru liðnar. Þegar Keflvíkingum var spáð sjöunda til áttunda sætinu horfðu eflaust flestir á þrjú atriði: Þeir höfðu misst sterka miðjumenn frá því í fyrra, unnu þá ekki leik í síðustu tíu umferðunum, og í vetur og vor hafa þeir ekki verið sannfærandi og margir leikmenn liðsins verið meiddir.

En spekingunum er vorkunn að vissu leyti því Kristján Guðmundsson fékk til liðs við sig þrjá sterka leikmenn á síðustu stundu fyrir mótið. Hans Mathiesen kom frá Fram og tók stöðu Jónasar Guðna Sævarssonar á miðjunni. Svipaður á hæð og Jónas og vinnusamur, og gæti vel fyllt hans skarð þótt það sé ekki auðvelt. Hans fékk sannkallaða óskabyrjun. Hjá Fram var markaskorun ekki hans sterka hlið en eftir aðeins 56 sekúndur sendi hann boltann í mark meistaranna og var síðan óhemju grimmur og mikilvægur á miðjunni þær 55 mínútur sem hann spilaði.

Himnasendingin frá Danmörku sem tilkynnt var um kvöldið fyrir leik, Hólmar Örn Rúnarsson og Hörður Sveinsson, sat á varamannabekknum.  Ljóst er að Hólmar verður þar ekki lengi, enda kom hann til leiks fljótlega í seinni hálfleik, og Hörður bætist í góðan hóp sóknarmanna liðsins. Þeir félagar auka breiddina í hópnum til muna og gera útslagið um að Kristján er með lið í höndunum sem getur hæglega gert talsverðan usla í efri hluta deildarinnar.

Símun Samuelsen MM
Ómar Jóhannsson M, Guðmundur Mete M, Kenneth Gustafsson M, Nicolai Jörgensen M, Hans Mathiesen M, Hallgrímur Jónasson M, Guðmundur Steinarsson M


Fréttablaðið
Titilvörn Vals í Landsbankadeild karla hófst ekki eins og vonir stóðu til. Valsmenn steinlágu gegn frískum og grimmum Keflvíkingum, 5-3, í frábærum leik í góðviðrinu í Keflavík.

Keflvíkingar fengu óskabyrjun og komust í 2-0 á fimm fyrstu mínútum leiksins með mörkum Hans Mathiesen og Símun Samuelsen.

Valsmenn voru engu að síður síst verri aðilinn í fyrri hálfleik auk þess sem liðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik. Valsmenn færðu sig framar á völlinn í upphafi síðari hálfleiks og það nýttu Keflvíkingar sér þegar Guðmundur Steinarsson skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 56. mínútu sem kom upp úr skyndisókn.

Aðeins fjórum mínútum síðar minnkaði Valur muninn þegar Kenneth Gustafsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Aðeins mínútu síðar var munurinn aftur kominn í þrjú mörk þegar Guðmundur Steinarsson skoraði sitt annað mark og 12 mínútum fyrir leikslok skoraði Guðjón Antoníusson fimmta mark Kefla­víkur. Þá slökuðu heimamenn á og Valsmenn náðu að minnka muninn í tvö mörk.

Ómar 7, Guðjón 7, Kenneth 7, Guðmundur Mete 7, Nicolai 7 (Jón Gunnar -), Magnús 7 (Hörður 7), Hallgrímur 7, Hans 7 (Hólmar Örn 6), Símun 8, Patrik 6, Guðmundur Steinars 8.
Maður leiksins: Guðmundur Steinars.


Landsbankadeildin, 10. maí 2008 - Sparisjóðsvöllurinn

Keflavík 5 (Hans Mathiesen 1., Símun Samuelsen 5., Guðmundur Steinarsson víti 56., 60., Guðjón Árni Antoníusson 77.)
Valur 3 (Sjálfsmark 60., Hafþór Vilhjálmsson 86., Bjarni Ólafur Eiríksson 88.)

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Nicolai Jörgensen (Jón Gunnar Eysteinsson 78.) - Magnús Þorsteinsson (Hörður Sveinsson 66.), Hallgrímur Jónasson, Hans Mathiesen (Hólmar Örn Rúnarsson 53.), Símun Samuelsen - Patrik Redo, Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Þórarinn Kristjánsson.
Gul spjöld: Hans Mathiesen (19.), Hallgrímur Jónasson (32.), Guðmundur Mete (86.).

Dómari: Kristinn Jakobsson.
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson.
Varadómari: Örvar Sær Gíslason.
Eftirlitsmaður: Eyjólfur Ólafsson. 
Áhorfendur: 1920.


Kenneth og Bói loka á Gumma Ben.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)