Markverðir, brot og meiðsli...
Eins og vallargestir á Fylkisleiknum sáu í gær þá meiddist Magnús Þormar í leiknum eftir að leikmaður Fylkis fór harkalega í hann eftir að Magnús hafði kastað sér niður og gómað boltann á undan Fylkisleikmanninum. Magnús þurti að fara í aðgerð strax í gærkvöldi og sauma sjö spor við nára en drengurinn er með þrjár rispur upp eftir öllu lærinu og höggið endar í náranum þar sem sprakk æð. Ekki lítið högg það!
Með ólíkindum er að hugsa til baka um viðbrögð Fylkismanna við brotinu og þá ekki síst viðbrögð varamannabekkjarins hjá liðinu sem töldu ekkert hafa gerst í umræddu atviki og fannst þeim með ólíkindum að dómarinn skyldi yfir höfuð dæma á brotið!!!
Ekki skiljum við hvað leikmönnum gengur til með að leika svo gróflega gegn markvörðum en nú eru komnir tveir leikir í röð þar sem markvörður Keflavíkur þarf að yfirgefa leikvöllinn og fara á sjúkrahús í miðjum leik. Í gærkvöldi sáum við annað atvik þar sem farið var háskalega í markvörð FH í leiknum gegn ÍA.
Varla þarf að fjölyrða um hversu varnarlausir markmenn eru bæði þegar þeir kasta sér niður til þess að verja eða grípa háa bolta og getur verið stórvarhugavert að gera atlögu gegn markverðinum í þessum leikatriðum eins og við höfum séð í seinustu tveimur leikjum okkar.
Hvað hefur orðið um þær fyrirskipanir að hoppa yfir markmann til að forðast árekstur óvarins leikmanns þegar hann hendir sér niður til þess að ná boltanum?
Eini maðurinn sem getur varið markmenn gagnvart þessu er dómarinn! Ef harðar verður ekki tekið á þessum málum í næstu leikjum í deildinni þá eigum eftir að sjá fleiri atvik sem þessi. Þess má geta að Fylkismaðurinn fékk ekki einu sinni áminningu fyrir þetta brot.
Magnús er enn á sjúkrahúsi og vitum við ekki fyrr en í kvöld hversu lengi drengurinn verður frá en við óskum honum skjóts bata því við viljum fá hann sem allra fyrst aftur á æfingasvæðið okkar…
Jón Örvar Arason,
markmannsþjálfari mfl. karla
Verið er að hlúa að Magnúsi í leiknum í gær.
(Mynd: Víkurfréttir)
Magnús meiddist í deildarbikarnum í vor.
Ómar meiðist gegn ÍA á dögunum.