Fréttir

Knattspyrna | 18. september 2007

Meistaraflokkur kvenna!

Nú er leikjum meistaraflokks lokið í Landsbankadeild kvenna þetta tímabilið og 4. sætið tryggt.  Liðið hefur staðið sig frábærlega í sumar og Salih Heimir Porca skilað frábæru starfi.

Liðið hefur verið byggt upp á góðri blöndu yngri og eldri leikmanna, yngri leikmenn okkar sem spila með 2. flokki eru t.d. Eva Kristinsdóttir, Anna R. Jóhannsdóttir, Elísabet Ester Sævarsdóttir, Björg Magnea Ólafs, Bryndís Bjarnadóttir, Rebekka Gísladóttir og Justyna Wroblewska.  Þessar stelpur hafa verið að spila mikið í sumar og hafa öðlast góða reynslu með meistaraflokki.  Einnig hafa Helena Þórólfsdóttir og Karen Sævarsdóttir (sem hafa báðar átt við meiðsl að stríða), Jóna Stefánsdóttir, Sára Samuelsen og Brynja Bjarnadóttir verið viðriðnar meistaraflokk í sumar.  Þessar stelpur hafa allar sett mikinn svip á liðið í sumar og eiga eftir að gera um ókomin ár.

Svo má ekki gleyma yngstu þátttakendunum í meistaraflokki en það eru stelpurnar okkar úr 3. flokki sem hafa komið inn í liðið núna seinnipart sumars þegar meiðsli og leikbönn hafa verið að hrjá okkur.  Þetta eru leikmenn eins og Íris Rúnarsdóttir, Guðrún Olsen, Agnes Helgadóttir, Fanney Kristinsdóttir og Laufey Andrésdóttir.  Allar þessar stelpur eru gríðarleg efni og hafa þær sýnt mikinn þroska, bæði líkamlegan og andlegan, í leik sínum og verður gaman að fylgjast með framgangi þeirra hjá Keflavík næstu árin.  Eins og þessi upptalning sýnir eru möguleikar okkar miklir með svona efnivið í höndunum og veit ég að þessar stelpur ásamt þeim sem koma upp næstu árin eiga eftir að halda merki Keflavíkur á lofti næstu árin.

Erlendu leikmenn okkar í sumar hafa verið okkur mikill styrkur; má þar nefna Vesnu Smiljkovic, Dönku Podovac, Jelenu Petrovic, Donnu Cheyne, Beth Ragdale og Unu Harkin.  Þessir leikmenn hafa verið okkur gríðarlega mikilvægir í að brúa það bil sem myndast hefur í árganga okkar en með góðri innkomu yngri leikmanna þá minnkar vonandi þörfin fyrir erlenda leikmenn.

Svo eru það auðvitað okkar eldri leikmenn sem hafa haldið skútunni á floti og eiga mikið þakklæti skilið fyrir að hafa þraukað erfiðu tímabilin en eru að uppskera núna þetta tímabíl og vonandi mörg til viðbótar.  Þetta eru þær Lilja Íris Gunnarsdóttir fyrirliði, Guðný og Björg Ásta Þórðardætur og Dúfa Ásbjörnsdóttir.  Þetta er og hefur verið hryggjarsúlan okkar og hefur mikið mætt á þeim undanfarin ár.  Þetta eru tvímælalaust leikmenn sem mundu sóma sér í hvaða liði sem er Landsbankadeildinni.  Svo bætist inn í þetta á síðustu metrunum í sumar Inga Lára Jónsdóttir sem hefur sýnt að hún hefur allt það sem þarf til að spila í efstu deild og verður vonandi áframhald á því.

Eins og sjá má á þessari upptalningu þá hefur Porca þjálfari verið með mjög ólíkan hóp í höndunum í sumar en þetta er hópur sem verður sterkari með hverjum leiknum og á framtíðina fyrir sér.  Er það von mín og veit ég margra að kvennaknattspyrnan haldi áfram að dafna í Keflavík.

Á laugardag leikur Keflavík við KR í úrslitaleik VISA-bikarsins á Laugardalsvelli og hefst leikurinn kl. 16:00.  Upphitun verður í K-húsi og hefst hún kl. 13:00.  Þar verður andlitsmálun svo stuðningsmenn Keflavíkur geti mætt galvaskir í Laugardalinn og stutt sitt lið.  Einnig er von á að PUMA-sveitin okkar margfræga mæti og komi með sýnishorn af því sem koma skal og ekki má gleyma Kela Keflvíking.

Mætum öll og styðjum Keflavík í úrslitaleik VISA-bikarsins.

Fríar rútuferðir verða frá Keflavík í Laugardalinn og leggja þær af stað kl. 14:30 frá K-húsinu við Hringbraut.

Baráttu kveðja
Þórður Þorbjörnsson



Anna Rún og Bryndís Bjarna í baráttu við Fjölni í VISA-bikarnum.


Dúfa Ásbjörns, Anna Rún, Lilja Íris og Donna með allt á hreinu gegn Fylki.


Eva Kristins, Vesna, Danka, Lilja Íris og Björg Magnea fagna marki.


Flottur hópur: Björg Magnea, Una, Bryndís, Eva, Beth, Björg Ásta og Lilja Íris í leik á móti Stjörnunni.