Metsigur hjá stelpunum
Það var mikið markaregn á Keflavíkurvelli í gærkvöldi þegar Keflavík vann stórsigur á liði Fylkis, 10-0. Markamaskínan Nína Ósk Kristinsdóttir var heldur betur á skotskónum og skoraði sex mörk, Karen Penglase gerði tvö og þær Vesna Smiljkovic og Danka Podovac eitt mark hvor. Eftir leikinn er Keflavíkurliðið í 5. sæti Landsbankadeildarinnar með 12 stig eftir 8 leiki.
Eftir því sem við komumst næst er þetta stærsti sigur Keflavíkur í efstu deild. Fyrra metið var 8-0 sigur á Haukum árið 1986. Stærsti deildarsigurinn kom hins vegar í B-deildinni árið 2004 þegar Keflavík vann Ægi 22-0. Mörkin sex hjá Nínu eru einnig það mesta sem leikmaður Keflavíkur hefur skorað í einum leik í efstu deild. Nína er nú búin að skora 18 mörk í deildinni í sumar. Hún er komin með 27 mörk fyrir Keflavík í 19 leikjum í efstu deild og er orðin markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi í efstu deild kvenna.
Næsti leikur hjá stelpunum er útileikur gegn Breiðabliki þriðjudaginn 11. júlí.
Frá leiknum á Keflavíkurvelli.
(Mynd: Jón Björn Ólafsson / Víkurfréttir)