Mikilvægur heimasigur gegn Víkingum
Keflavík vann annan sigur sinn í röð í Pepsi-deildinni þegar liðið vann góðan heimasigur á Víkingum. Guðjón Árni Antoníusson kom Keflavík yfir eftir um tuttugu mínútna leika og um tíu mínútum síðar bætti Jóhann Birnir Guðmundsson öðru marki við. Viktor Jónsson minnkaði muninn fyrir Víkinga í seinni hálfleik en lokatölur urðu 2-1. Eftir leikinn er Keflavík í 7.-8. sæti deildarinnar með 14 stig.
Næsti leikur er útileikur gegn Þór á Akureyri mánudaginn 18. júlí kl. 19:15.
-
Leikurinn var 41. leikur Keflavíkur og Víkings í efstu deild. Þetta var 21. sigur Keflavíkur, Víkingur hefur unnið sjö leiki en 13 hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 65-50 fyrir Keflavík.
-
Guðjón Árni Antoníusson skoraði sitt fyrsta mark í sumar og tíunda mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild.
-
Jóhann Birnir skoraði fjórða deildarmark sitt í sumar og er þar með orðinn markahæsti leikmaður liðsins. Markið var 25. mark Jóhanns fyrir Keflavík í efstu deild og hann er orðinn 11. markahæsti leikmaður félagsins þar frá upphafi. Í 9.-10. sæti eru Haukur Ingi Guðnason og Ólafur Júlíusson með 26 mörk og Friðrik Ragnarsson er í 8. sætinu með 27 mörk þannig að Jóhann á góða möguleika á að færast verulega upp listann.
-
Einar Orri Einarsson lék ekki með Keflavík en hann tók út leikbann vegna fjögurra gulra spjalda.
-
Svo skemmtilega vildi til að þeir þrír leikmenn sem komu inn á hjá Keflavík í leiknum eru nafnar. Þeir Magnús Þór Magnússon, Magnús Þórir Matthíasson og Magnús Sverrir Þorsteinsson komu inn á sem varamenn fyrir Andra Stein, Jóhann Birni og Guðmund.
-
Keflavík hefur ekki tapað í síðustu tíu heimaleikjum gegn Víkingi í efstu deild. Jafntefli varð í síðasta leik liðanna í Keflavík árið 2007 en þar áður hafði Keflavík unnið átta leiki í röð. Síðasti sigur Vikinga í Keflavík kom árið 1983 þegar þeir unnu 2-1. Óli Þór Magnússon gerði mark Keflavíkur í þeim leik.
Fótbolti.net
Víkingar komu í heimsókn á Nettó-vellinum í Keflavík í kvöld. Keflvíkingar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik, en gáfu eftir í þeim senni eftir að hafa leikið einstaklega vel í fyrri hálfleik. Víkingar komust inn í leikinn en náðu ekki að jafna og lokatölur 2-1 fyrir Víking.
Jóhann Birnir Guðmundsson lék frábærlega. Hann spilaði eins og herforingi inn á miðjunni. Vann vel, skoraði fallegt mark og lagði upp færin á liðsfélagana. Það var mikill blóðtaka þegar hann þurfti að fara af velli tuttugu mínútum fyrir leikslok. Ómar Jóhannsson, markvörður, átti einnig fínan leik sem og Haraldur Freyr í miðri vörninni.
Fréttablaðið / Vísir
Keflavík vann mikilvægan 2-1 sigur á Víkingi í fallbaráttuslag í Keflavík í gær en Keflavík var 2-0 yfir í hálfleik. Keflvíkingar hafa með sigrinum hrist af sér fallbaráttuslaginn í bili og virðast vera að hressast nokkuð.
Keflavík var mun sterkari í leiknum og hefði hæglega getað verið fleiri mörkum yfir í hálfleik. Leikurinn var jafnari í seinni hálfleik þótt lítið hafi bent til þess að Víkingur myndi ógna forystu Keflavíkur þegar liðið skoraði.
Ómar 7, Guðjón Árni 8, Viktor 6, Adam 5, Haraldur 7, Andri Steinn 5 (Magnús Þór 6), Arnór Ingvi 7, Jóhann Birnir 8 (Magnús Þórir -), Bojan Stefán 7, Hilmar Geir 4, Guðmundur 5 (Magnús Sverrir -).
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar eiga efnilega kynslóð leikmanna í 2. flokki og Willum Þór Þórsson þjálfari hefur gefið þeim tækifæri í meistaraflokki. Þrír þeirra voru í byrjunarliðinu í gærkvöldi og stóðu sig vel. „Ferskir strákar eru komnir inn í liðið og það er virkilega gaman að spila með þeim því þeir eru svo viljugir. Þeir hafa komið með ferskleika inn í liðið og það munar mikið um það að mínu mati. Það eru frábærir strákar að koma upp úr yngri flokkunum í Keflavík og þeir eru fleiri en þessir sem hafa komið við sögu í Pepsí-deildinni. Það er bjart framundan og vonandi náum við þessir gömlu að hanga áfram með þeim til að kenna þeim eitthvað,“ sagði Jóhann Birnir Guðmundsson í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum í gærkvöldi. Þó ungu mennirnir, Viktor, Arnór og Bojan, hafi sýnt lipra takta þá var gamli maðurinn, Jóhann, engu að síður maður leiksins: Tók boltann niður og spilaði honum þegar færi gafst, gaf hættulegar sendingar á framherjana og inn á vítateiginn, auk þess að kóróna frammistöðuna með frábæru marki.
MM: Jóhann Birnir.
M: Ómar, Guðjón Árni, Haraldur Freyr, Arnór Ingvi, Bojan Stefán.
Víkurfréttir
Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga skartaði reffilegri greiðslu í gær en vildi þó ekki viðurkenna að hann hefði tapað veðmáli eða neitt slíkt. „Nei, nei. Það er ekkert í gangi þannig. Systir konunnar er hárgreiðslukona og mig langaði að breyta aðeins til, sjá aðeins út í rauninni. Það eru ekkert allir sem geta „púllað“ þetta,“ sagði Haraldur sem lítur út eins og Rio Ferdinand með hárið fléttað fast aftur en dómur er eftir að falla hvort hann „púlli“ greiðsluna.
En hvernig líst honum á síðustu tvo leiki Keflvíkinga. „Ég er sáttur við spilamennskuuna hjá okkur í dag allavega. Fyrstu 70 mínúturnar fannst mér við keyra yfir þá, mér fannst þeir ekki eiga séns í okkur. Svo kemur þetta mark upp úr þurru hjá þeim og þá kemur smá órói á okkar leik. En hefði þriðja markið fallið okkar meginn þá hefði sennilega komið númer fjögur og fimm því við vorum með góð tök á þessu.“
Haraldur er ánægður með ungu mennina sem eru að standa sig vel hjá liðinu. „Það kemur klárlega ferskleiki inn í liðið með þessum ungu leikmönnum. Þeir koma óhræddir inn og eru allir í líkamlega góðu standi. Þeir eru líka með tæran koll í þetta.“
Keflvíkingar hafa nú sigrað tvo leiki í röð gegn liðum sem eru í neðri botnbaráttu og næst leika þeir gegn Þórsurum sem eru í 10. sæti. „Það er mikilvægt að vinna þessi lið í kringum okkur og það væri frábært að ná í stig gegn Þór í næsta leik,“ sagði Haraldur „Rio“ Guðmundsson að lokum.
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 11. júlí 2011
Keflavík 2 (Guðjón Árni Antoníusson 21., Jóhann Birnir Guðmundsson 33.)
Víkingur 1 (Viktor Jónsson 67.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Viktor Smári Hafsteinsson, Adam Larsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Bojan Stefán Ljubicic, Arnór Ingvi Traustason, Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Þórir Matthíasson 74.), Andri Steinn Birgisson (Magnús Þór Magnússon 23.), Hilmar Geir Eiðsson, Guðmundur Steinarsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 90.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Goran Jovanovski, Frans Elvarsson, Grétar Hjartarson.
Gul spjöld: Bojan Stefán Ljubicic (41.), Haraldur Freyr Guðmundsson (45.).
Dómari: Erlendur Eiríksson.
Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Leiknir Ágústsson.
Eftirlitsdómari: Guðmundur Sigurðsson.
Áhorfendur: 793.
Guðjón Árni kemur Keflavík yfir.
(Mynd: Víkurfréttir)