Fréttir

Mikilvægur sigur á Eyjamönnum
Knattspyrna | 25. maí 2012

Mikilvægur sigur á Eyjamönnum

Eftir tvo tapleiki í röð í Pepsi-deildinni unnu okkar menn mikilvægan sigur þegar ÍBV koma í heimsókn á Nettó-völlinn í 5. umferð deildarinnar.  Það var Jóhann Birnir Guðmundsson sem skoraði eina mark leiksins á 64. mínútu og þar við sat.

Næsti leikur er útileikur gegn Val á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda fimmtudaginn 31. maí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 64. leikur Keflavíkur og ÍBV í efstu deild.  Þetta var 25. sigur Keflavíkur, ÍBV hefur unnið 27 og tólf hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 96-105 fyrir ÍBV.
             
  • Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði fyrsta deildarmark sitt í sumar.  Þetta var 28. mark Jóhanns fyrir Keflavík í efstu deild en hann hefur leikið þar 111 leiki.  Hann er orðinn 8. markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi í efstu deild.  Þar á undan eru Jón Ólafur Jónsson með 31 mark og Hörður Sveinsson með 30.
        
  • Bojan Stefán Ljubicic var í fyrsta skiptí í byrjunarliðinu í sumar en hann kom inn fyrir Hilmar Geir Eiðsson.  Einar Orri Einarsson kom aftur inn í liðið eftir að hafa misst af síðasta leik vegna meiðsla en þurfti að fara af velli snemma leiks.
     
  • Guðmundur Steinarsson lék sinn 238. leik í efstu deild og er orðinn 10. leikjahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi.  Hann fór upp fyrir nafna sinn Guðmund Benediktsson á listanum. (Heimild: Morgunblaðið).  Guðmundur hefur leikið 227 leikjanna fyrir Keflavík og það þarf ekki að taka fram að hann er leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild.
             

Fótbolti.net
,,Við vorum að leggja 120 prósent á okkur í dag og við vissum að þetta yrði erfiður leikur þar sem ÍBV gefur ekki mikið pláss og eru mjög skipulagðir. Þeir eru með marga góða leikmenn og við vissum að það yrði mjög erfitt að spila í gegnum þá, en ég er mjög sáttur og verð að hrósa mínum mönnum fyrir frammistöðuna," sagði Zoran Ljubicic, þjálfari Keflvíkinga eftir sigur liðsins á ÍBV í Pepsi-deildinni í kvöld.

,,Við vorum ákveðnir í að bæta þetta eftir síðasta leikinn gegn ÍA og æfðum þetta vel í vikunni, gekk vel í kvöld og Haraldur stjórnaði þessu frábærlega."

,,Þegar við erum með svona hugarfar og vilja þá get ég ekki sagt að ég sé hræddur," sagði hann að lokum.

Fréttablaðið / Vísir
Síðari hálfleikurinn byrjaði rólega eins og sá fyrri en Eyjamenn voru þó líklegri til þess að skora. Það var svo gegn gangi leiksins sem heimamenn í Keflavík komust yfir á 64. mínútu.

Jóhann Ragnar Benediktsson átti þá langt innkast inn á teig sem barst til Jóhanns Birnis Guðmundssonar sem skaut beint á Abel Dhaira í marki ÍBV. Honum tókst einhvernveginn að missa boltann undir sig og staðan orðin 1-0 eftir skelfileg mistök markvarðarins.

Ómar 7, Grétar Atli 7, Jóhann Ragnar 7, Einar Orri - (Magnús Þór 7), Haraldur 8, Denis 6, Arnór Ingvi 6, Frans 6, Jóhann Birnir 7, Bojan 6 (Hilmar Geir -), Guðmundur 5 (Sigurbergur -).

Morgunblaðið / Mbl.is
Það er alveg óhætt að segja að lukkan sé ekki í herbúðum Eyjamanna á upphafi Íslandsmóts karla í knattspyrnu. Liðið er með tvö stig eftir fimm leiki og í gær átti liðið í raun skilið meira en ekkert þegar það heimsótti Keflvíkinga. Nafnarnir Jóhann R. Benediktsson og Jóhann Birnir Guðmundsson sáu um að Keflvíkingar fengju öll þrjú stigin og góð vörn Keflavíkinga og fín markvarsla Ómars Jóhannssonar í tvígang kom í veg fyrir að Eyjamenn næðu að skora þó svo að þeir fengju nokkur þokkaleg færi til þess.
M: Ómar, Grétar Atli, Haraldur Freyr, Denis, Jóhann Birnir.

Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar unnu 1-0 sigur á Eyjamönnum í Pepsi-deild karla í knatspyrnu í kvöld á heimavelli sínum. Með sigrinum eru Keflvíkingar komnir í sjö stig eftir fimm umferðir og dvelja í 5. sæti deildarinnar. Það var gamla brýnið Jóhann Birnir Guðmundsson  sem skoraði mark Keflvíkinga á 64. mínútu en markið verður að skrifast að hluta til á markvörð Eyjamanna sem missti boltann hreinlega úr höndum sér.

Leikurinn var ekki sá skemmtilegast sem sést hefur á Nettóvellinum en bæði lið voru þó að reyna sitt besta til þess að spila fótbolta og var mikil barátta í leiknum. ÍBV liðið var líflegra í sóknarleiknum en Keflvíkingar vörðust vel. Það sem hefur verið að há Keflvíkingum er að þeir hafa ekki verið að klára leiki þrátt fyrir að hafa verið að spila fínan fótbolta framan af móti. Í kvöld vörðust þeir vel en voru ekki að skapa sér mikið af færum. Engu að síður komu þrjú stig í hús og voru Keflvíkingar virkilega sáttir í lok leiks. „Það má segja að þetta sé nánast alveg eins og leikurinn geng Stjörnunni nema núna náðum við að sigra. Við komust aldrei í takt við þennan leik en það er frábært að vinna á meðan við erum ekki að spila vel,“ sagði Jóhann markaskorari Keflvíkinga að leik loknum.

Undir lok leiksins gerðist svo umdeilt atvik en þá var Jóhanni Benediktssyni vikið af velli fyrir að tefja leikinn. Hann hugðist taka aukaspyrnu en Hilmar Geir Eiðsson liðsfélagi hans sat fyrir boltanum og hnýtti skóþveng sinn. Dómarinn tók þá á það ráð að veita Jóhanni annað gula spjald sitt og þar með snemmbúna ferð í sturtu. Jóhann var allt annað en sáttur og Keflvíkingar sömuleiðis í stúkunni.

Þetta var sterkur sigur hjá Keflvíkingum í kvöld en liðið barðist vel og uppskar þrjú dýrmæt stig.

433.is
Eina mark leiksins kom á 64. mínútu, eftir langt innkast frá Jóhanni Benediktssyni barst boltinn á Jóhann Birnir sem skaut beint að marki ÍBV.

Abel virtist ætla að verja boltann en missti hann á einhvern ævintýralegan hátt í gegnum lappirnar á sér og þaðan í markið.

Þetta mark reyndist eina mark leiksins en undir lokinn fékk Jóhann Ragnar Benediktsson að líta rauða spjaldið þegar hann fékk sitt annað gula spjald fyrir tuð. Dómari leiksins Garðar Örn Hinriksson sem er oft nefndur rauði baróninn stóð undir nafni.

Sigur Keflvíkinga var sætur en liðið hafði tapað síðustu tveimur leikjum þrátt fyrir að vera ekki slakari aðilinn.

Ómar 6, Grétar Atli 6, Jóhann Ragnar 5, Einar Orri 5 (Magnús Þór 5), Haraldur 7, Denis 6, Arnór Ingvi 6, Frans 5, Jóhann Birnir 7, Bojan 6 (Hilmar Geir -), Guðmundur 6 (Sigurbergur -).

 
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 24. maí 2012
Keflavík 1
(Jóhann Birnir Guðmundsson 64.)
ÍBV 0

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Einar Orri Einarsson (Magnús Þór Magnússon 28.), Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Bojan Stefán Ljubicic (Hilmar Geir Eiðsson 78.), Denis Selimovic, Arnór Ingvi Traustason, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson (Sigurbergur Elísson 78.).
Varamenn: Bergsteinn Magnússon, Viktor Smári Hafsteinsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Daníel Gylfason.
Gul spjöld: Magnús Þór Magnússon (36.), Grétar Atli Grétarsson (48.), Jóhann R. Benediktsson (58.), Denis Selimovic (89.).
Rautt spjald: Jóhann R. Benediktsson (90.).

Dómari: Garðar Örn Hinriksson.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Jón Magnús Guðjónsson.
Eftirlitsdómari: Jón Sigurjónsson.
Áhorfendur: 930.
 


Jóhann Birnir skoraði sigurmarkið.