Fréttir

Mikilvægur sigur í Laugardalnum
Knattspyrna | 21. júní 2012

Mikilvægur sigur í Laugardalnum

Keflavík vann mikilvægan sigur á Fram þegar liðin mættust á Laugardalsvellinum í 8. umferð Pepsi-deildarinnar.  Lokatölur urðu 2-0 og komu bæði mörkin snemma leiks.  Frans Elvarsson skoraði það fyrra strax í byrjun leiksins og Guðmundur Steinarsson bætti öðru marki við með glæsilegu skoti.

Eftir leikinn er Keflavík í 9. sæti deildarinnar með tíu stig.  Næsti leikur er heimaleikur gegn Selfossi á Nettó-vellinum mánudaginn 2. júlí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 87. leikur Keflavíkur og Fram í efstu deild.  Þetta var 33. sigur Keflavíkur, Fram hefur unnið 27 leiki og 27 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 126-116 fyrir Keflavík.
             
  • Keflavík vann loksins útileik gegn Fram eftir þrjú töp í röð í efstu deild.  Þar áður tapaði Keflavík ekki í fimm útileikjum í röð gegn Frömurum.
      
  • Frans Elvarsson og Guðmundur Steinarsson skoruðu báðir þriðja mark sitt í deildinni í sumar og eru nú markahæstu leikmenn liðsins ásamt Arnori Ingva Traustasyni.  Frans skoraði fjórða markið í efstu deild í sínum 14. leik en mark Guðmundar var 77. markið hans fyrir Keflavík í efstu deild.
      
  • Jóhann Ragnar Benediktsson lék sinn 50. leik fyrir Keflavík í efstu deild en sá fyrsti var gegn Leiftri árið 1999.  Jóhann lék með okkur á árunum 1999-2002 og gekk svo aftur til liðs við Keflavík fyrir þetta tímabil.
         
  • Keflavík lék í fyrsta sinn í gulum varabúningum sem liðið mun nota í sumar.  Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1989 sem Keflavík leikur í gulu en þá var guli og blái búningurinn settur á hilluna eftir 17 ára þjónustu.  Miðað við alþekkta hjátrú knattspyrnumanna er spurning hvort liðið skiptir ekki alfarið yfir í gult eftir sigurinn í gær...
     

Fótbolti.net
Frans Elvarsson leikmaður Keflavíkur var gríðarlega sáttur við stígin þrjú gegn Fram en Frans átti frábæran leik í liði Keflavíkur.

Keflvíkingar pressuðu stíft í byrjun og komust snemma í 2-0 og var sem þeir væru nánast eina liðið á vellinum í fyrri hálfleiknum.

Það er gott að byrja vinna aftur, við vorum komnir í lægð, þannig að það er gott að vera kominn aftur á sigurbraut. Við leggjum auðvita alla leiki upp með að byrja vel en við hefðum átt að klára þetta algjörlega í fyrri hálfleik við vorum miklu betri en þeir, þeir mættu eiginlega ekki til leiks strax þannig að við hefðum átt að setja annað mark í viðbót á þá í fyrri hálfleik

Við vorum búnir að fá á okkur 8 mörk í seinustu tveimur leikjum þannig að það var markmið hjá okkur að halda hreinu í dag.

Fréttablaðið / Vísir
Guðmundur Steinarsson var varnarmönnum Fram óþægur ljár í þúfu og hann var að vonum sáttur eftir leikinn. „Við litum mjög vel út og mikilvægast var að halda hreinu í þessum leik. Við viljum ekki senda þau skilaboð að það sé auðvelt að skora hjá okkur en við höfðum fengið á okkur 8 mörk í síðustu tveimur leikjum og það var alveg kominn tími á að stoppa í götin." Aðspurður um draumamark sitt svaraði Guðmundur „Við vorum þarna tveir elstu mennirnir í liðinu í skyndisókn og það hefði sennilega orðið hægasta skyndisókn allra tíma. Ég sá að Ögmundur var ansi framarlega og ákvað að lúðra bara á markið. Sem betur fer heppnaðist það svona vel."

Ómar 6, Grétar Atli 7, Jóhann Ragnar 7, Gregor 7, Haraldur 8, Einar Orri 6, Arnór Ingvi 6, Frans 7, Sigurbergur 6 (Ísak Örn -) Jóhann Birnir 6 (Hilmar Geir -), Guðmundur 7 (Magnús Sverrir 5).

Morgunblaðið / Mbl.is
Sannkallað draumamark Guðmundar Steinarsson gladdi virkilega augu áhorfenda á Laugardalsvelli í gærkvöldi þegar Keflvíkingar heimsóttu lánlausa Framara og unnu 2:0. Guðmundur skoraði með skoti rétt framan við miðju.

»Eigum við ekki að segja það!« sagði Guðmundur hlæjandi þegar hann var spurður eftir leik hvort hann hefði skotið af þessu færi vegna þess að hann hefði ekki nennt að fara nær markinu. »Ég var búinn að sjá að markmaðurinn var aðeins framarlega og boltinn lá vel þannig að ég ákvað að láta bara vaða, hitti hann vel,« sagði Guðmundur um markið glæsilega.

Í raun er vart hægt að sakast við Ögmund markvörð vegna marksins þó það hafi verið af löngu færi því hann var í rauninni á réttum stað í markinu, úti í miðjum vítateignum, en það er staðurinn fyrir markvörð að vera á þegar hans menn eru með knöttinn við miðlínu og í sókn. En Keflvíkingar unnu knöttinn af Frömurum og Guðmundur var snöggur að átta sig og skoraði þetta líka glæsilega markið.
M: Jóhann Ragnar, Gregor, Haraldur Freyr, Arnór Ingvi, Frans, Jóhann Birnir, Guðmundur.

Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar nældu sér í mikilvæg stig í baráttunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Framara í Laugardalnum með tveimur mörkum gegn engu.

Frans Elvarsson kom Keflvíkingum á bragðið með marki strax á 7. mínútu og svo var komið að þætti Guðmundar Steinarssonar. Þegar 20 mínútur voru liðnar tók Guðmundur upp á því að láta vaða frá miðju vallarins og boltinn sveif yfir markmann Framara sem stóð full framarlega. Glæsilegt mark hjá Guðmundi sem er óðum að finna sig.

Í síðari hálfleik gerðist svo lítið markvert og sterkur sigur hjá Keflvíkingum staðreynd.

 
Pepsi-deild karla, Laugardalsvöllur, 20. júní 2012
Fram 0
Keflavík 2
(Frans Elvarsson 7., Guðmundur Steinarsson 20.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson,  Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Gregor Mohar, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Sigurbergur Elísson (Ísak Örn Þórðarson 81.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Hilmar Geir Eiðsson 71.), Guðmundur Steinarsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 63.) 
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Denis Selimovic, Bojan Stefán Ljubicic.
Gult spjald: Einar Orri Einarsson (37.), Grétar Atli Grétarsson (41.), Ómar Jóhannsson (89.), Gregor Mohar (90.).

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.
Aðstoðardómarar: Sigurður Óli Þórleifsson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson.
Eftirlitsdómari: Egill Már Markússon.
Áhorfendur: 602.
 

Myndir: Jón Örvar og Eygló.