Misjafnt gengi hjá 3. flokki
Það hefur verið mikið um að vera hjá 3. flokki kvenna og því miður hefur gengi liðsins verið niður á við. Eftir að hafa leitt A-deildina í allt sumar og ekki tapað leik hafa þrír síðustu leikir tapast. Ekki er þó öll nótt úti enn með að komast í sjálfa úrslitakeppnina. Þá er 3. flokkur kominn í úrslit í 7 manna liðum og fer úrslitakeppnin fram í Keflavík nú um helgina. Þá spila stelpurnar í undanúrslitum bikarsins gegn FH á föstudaginn og leika á heima velli.
ÍBV - Keflavík: 3-2 (Karen Sævarsdóttir 2)
4. ágúst s.l sóttu stelpurnar ÍBV heim. Kannski hefur verslunarmannahelgin enn setið í þeim því þær komust aldrei í takt við leikinn. Við náðum þó forystu í leiknum en ÍBV náði að jafna, við komumst aftur yfir og leiddum í hálfleik 2-1.
Í seinni hálfleik vorum við betri aðilinn í leiknum og þrátt fyrir fín færi sem við náðum ekki að nýta var okkur refsað með tveimur mjög ódýrum mörkum. Liðið var engan veginn að spila sinn bolta og lét ÍBV leiða sig í algjört miðjuþóf á köflum sem virtist henta þeim mjög vel að vinna úr. Það virtist vanta allan vilja og grimmd til að fara með þrjú stig frá Eyjum. Því varð fyrsta tap sumarsins staðreynd.
Keflavík - Breiðablik:1-3 (Karen Sævarsdóttir)
Nú var komið að liði Breiðabliks sem er á góðu skriði í riðlinum. Spurningin var hvernig okkar stelpur kæmu til leiks eftir að hafa tapað fyrir ÍBV. Leikurinn byrjaði ágætlega en við fórum þó fljótt að gefa eftir og bökkuðum full mikið. Það var greinilegt að þær báru alltof mikla virðingu fyrir gestunum í fyrri hálfleik sem var ástæðulaust enda búnar að vinna þær í Kópavoginum fyrr í sumar. Stelpurnar léku ekki eins og lagt var upp með í hálfleiknum sem þýddi að við vorum undir í leikhlé 0-3.
Í þeim seinni náðum við fljótt að minnka muninn og kveikti þetta mark vel í okkur. Nú fórum við að láta Blikana finna fyrir okkur og pressuðum nokkuð stíft á þær. Þeim var nokkuð brugðið og nú voru það gestirnir sem bökkuðu til að halda sínu, það tókst þeim og fögnuðu þær vel í leikslok. Það er alltaf þetta stóra EF; ef við hefðum byrjað leikinn eins og við spiluðum seinni hálfleikinn er ég pottþéttur á því að úrslit þessa leiks hefðu orðið önnur.
KR - Keflavík: 4-3 (Karen Sævarsdóttir 3)
Stelpurnar léku gegn KR í Frostaskjóli s.l mánudag. Um var að ræða mikilvægan leik fyrir bæði lið um að komast í úrslitakeppnina. Það er mjög sárt að stórveldið KR, eins og það félag telur sig vera, geti ekki boðið upp á alvöru dómaratríó í svona leik. Tríóið samanstóð af dómara og tveimur stúlkum sem aðstoðardómarar og þurfti dómarinn að byrja á því að kenna stelpunum hvernig rangstaða yrði til í leik. Þetta tríó kom heldur betur í veg fyrir að við fórum ekki með sigur af hólmi eða næðum í það minnsta jafntefli.
Mynd: Karen Sævars skoraði öll mörk 3. flokks í leikjunum þremur
Keflavík byrjaði leikinn betur og hefðu átt að vera búnar að skora áður en KR skoraði og komst yfir í leiknum. En stelpurnar svöruðu því fljótt með marki frá Karen. Áður en blásið var til hlés höfðu bæði lið náð að skora og staðan 2-2.
Í seinni hálfleik fór tríóið heldur betur að láta að sér kveða, t.a.m. voru dæmdar 17 aukaspyrnur á okkur á meðan að við fengum aðeins eina. Þá fengum við ekki neitt er við vorum hindraðar í að komast í fjórgang einar inn fyrir vörn KR. Heimaliðið náði síðan forystu eftir að ein KR stelpan lagði knöttinn fyrir sig með hendi, það sáu allir á vellinum nema skytturnar þrjár. Stelpurnar reyndu allt sem þær gátu til að jafna leikinn en þvi miður kom rothöggið stuttu fyrir leikslok er KR-ingar skora fjórða mark sitt. Há sending kom inn fyrir vörn okkar þar sem KR-ingur stóð alein fyrir innan, svo kolrangstæð að .að hálfa væri nóg. Aðstoðardómarinn sem var á inniskóm sá ekki ástæðu til að lyfta flaggi sínu sökum anna við að lesa SMS-skilaboð ásamt tveimur drengjum sem stóðu hjá henni á hliðarlínunni. Stelpurnar náðu þó að klóra í bakkann með marki í lokin. Leikur okkar var mun betri heldur en leikirnir tveir á undan. En það var sama hvað stelpurnar hefðu gert í þessum leik þá áttu þær aldrei möguleika á að fara með sigur af hólmi því það hefði verið séð fyrir því að það mundi ekki gerast. KR-ingar ættu að skammast sín fyrir að bjóða upp á svona dómaratríó, það var kannski með ráðum gert?