Fréttir

Knattspyrna | 15. júlí 2005

Misjafnt gengi hjá 4. flokki

4. flokkur kvenna skellti sér á Skipaskaga s.l. miðvikudag og lék gegn ÍA í A- og B- liðum.

Leikurinn hjá A-liðinu byrjaði nokkuð vel og réðum við lengstum ferðinni.  Á 20. mínútu náðum við forystu með marki frá Sigurbjörgu sem átti gott skot á markið fyrir utan teig og boltinn söng í netinu.  Fimm mínútum seinna náði Íris að bæta við marki.  Hún var stödd á hægri kantinum og reyndi fyrirgjöf en boltinn sveif yfir markvörð ÍA í fjærhornið; stöngin inn og staðan orðin 2-0.  Stelpurnar í góðum málum en einhverra hluta vegna fóru þær að gefa eftir og dómari þessa leiks fór heldur betur að láta til sín taka.  Það byrjaði með því að hann færði ÍA-stúlkum vítaspyrnu á silfurfati eftir að ein stelpan stakk sér til sunds í vítateignum.  Þær skoruðu örugglega úr spyrnunni og staðan 2-1 okkur í vil í hálfleik.

Í seinni hálfleik héldum við áfram að leika illa og dómarinn að dæma illa, t.a.m.sluppum við í þrígang inn fyrir vörn ÍA en á óskiljanlegan hátt dæmdi hann aukaspyrnu á ÍA í öll skiptin.  Til að kóróna snilli sína dæmdi hann óbeina aukaspyrnu á okkur á vítateigslínu og gaf merki um að spyrnan væri óbein.  Skorað var beint spyrnunni og lét hann markið standa.  Við þetta hrundi leikur okkar algjörlega, þær vissu að það var sama hvað þær gerðu í þessum leik, það var þeim allt í óhag.  ÍA-stelpur náðu að skora sigurmarkið stuttu fyrir leikslok og var það eina mark þeirra sem hægt er að segja að hafi verið löglega skorað.  Eins og fyrr segir voru stelpurnar ekki að leika vel og er ekki bætandi á leik þeirra þegar að dómarinn gerist tólfti maður andstæðingsinns.

4. flokkur, A-lið: ÍA-Keflavík: 3-2 (Sigurbjörg(Bagga), Íris)
Keflavík:
Zohara, Ingibjörg, Ólína, Laufey, Jóhanna, Eyrún, Fanney, Bagga, Sveindís, Berta, Íris.

Leikur B-liðanna byrjaði einnig ágætlega og skiptust liðin á að sækja og bæði lið voru að fá fín færi.  Um miðjan hálfleikinn fóru ÍA-stelpur að sækja meira og við að sama skapi að gefa eftir.  Það þýddi að við fengum á okkur mark og ÍA komið með forystu 1-0.  Áfram héldu heimasætur að að sækja og fengu þær urmul færa á að bæta við mörkum en Arna markvörður, sem er í 5. flokki, sá um að þær gerðu það ekki með mjög góðri markvörslu.  Hún átti sannkallaðan stórleik í markinu.

Stelpurnar fóru aðeins að bíta frá sér í seinni hálfleik og fengu fljótlega þrjú þrumufæri á að jafna leikinn en grimmdin og frekjan var ekki nægjanleg til að koma knettinum yfir marklínuna.  ÍA jók síðan forystu sína í 2-0 um miðjan seinni hálfleik.  Stuttu áður en að því marki kom komst Guðrún ein í gegn og átti bara markvörð ÍA eftir en hún setti boltann beint í hana og enn eitt færið farið forgörðum.  Lokatölur 2-0 fyrir ÍA.  B-lið 4. flokks var nánast eingöngu skipað stelpum sem spila í 5. flokki eða sjö talsinns og stóðu sig allar mjög vel, sérstaklega Arna markvörður.  Þær eldri stóðu fyrir sínu en hefðu þó mátt leggja aðeins meira á sig en það gerist bara í næsta leik.  Aðeins að dómara þessa leiks, hann hafði t.d.enga línuverði með sér en dæmdi þó þennan leik mjög vel.

4. flokkur, B-lið: ÍA - Keflavík:2-0
Keflavík:
Arna, Heiða, Helena, Guðný, Hera, Marsibil, Jenný, Guðbjörg, Guðrún, Hulda, Eiríka, Ingunn.