Mörkunum rigndi niður gegn Eyjamönnum
Það var ekki skemmtilegt veður á Keflavíkurvelli þegar Eyjamenn komu í heimsókn í 10. umferð Landsbankadeildarinnar. Rok og rigning beið liðanna og áhorfenda en leikmenn létu það ekki á sig fá og okkar menn buðu upp á sannkallað markaregn. Lokatölur 6-2 fyrir Keflavík sem þar með eru komnir í 3.-4. sæti deildarinnar með 14 stig.
Það voru gestirnir sem byrjuðu betur og strax á 13. mínútu skoraði Pétur Runólfsson glæsilegt mark. Hann komst fremur auðveldlega í gegnum vörnina vinstra megin og sendi boltann efst í fjærhornið með fallegu skoti. Við þetta vöknuðu Keflvíkingar til lífsins og komust betur inn í leikinn. Á 27. mínútu jafnaði Kenneth með fyrsta marki sínu í sumar; gott skallamark eftir góða hornspyrnu frá Guðmundi. Okkar strákar gengu á lagið og náðu forystunni á 35. mínútu. Eftir laglega skyndisókn sendi Hólmar inn fyrir á Guðmund sem átti hörkuskot. Hrafn varði en hélt ekki boltanum og Stefán Örn fylgdi á eftir og skoraði af stuttu færi. Skömmu síðar fengu Eyjamenn sannkallað dauðafæri en skutu framhjá og síðan vildu Keflvíkingar meina að boltinn hefði farið í hönd varnarmanns inn í teig gestanna en ekkert var dæmt. Staðan því 2-1 í hálfleik.
Hafi fyrri hálfleikur verið fjörugur var það lognið á undan storminum miðað við það sem gekk á í þeim seinni. Eftir um tíu mínútna leik var staðan orðin 3-1 þegar Stefán Örn skoraði af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf frá Baldri. En í næstu sókn minnkuðu Eyjamenn muninn þegar Ulrik Drost slapp í gegn og lyfti boltanum laglega yfir Ómar. Eftir þetta blésu gestirnir til sóknar og reyndu allt til að jafna leikinn. Það verður að segjast eins og er að þeir gengu ansi hart fram og lauk atganginum með því að Páll Hjarðar fékk beint rautt spjald eftir brot á Baldri. Baldur var borinn af leikvelli og fluttur burt í sjúkrabíl. Við þetta atvik settu okkar menn í fluggírinn og sóttu hart að Eyjamönnum. Á 78. fékk Keflavík enn eina aukaspyrnuna sem Guðmundur tók. Hrafn varði skot hans en Þórarinn fylgdi á eftir og skoraði af miklu harðfylgi. Nokkrum mínútum síðar var komið að Guðmundi að skora með föstu skoti úr teignum sem Hrafn réði ekki við. Okkar menn voru ekki hættir og rétt fyrir leikslok skoraði Þórarinn aftur, nú með skalla úr markteignum eftir hornspyrnu. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri undir lokin. Staðan orðin 6-2 og rigningin orðin heldur þétt þegar Garðar dómari flautaði til leiksloka.
Keflavíkurvöllur, 13. júlí
Keflavík 6 (Kenneth Gustavsson 27., Stefán Örn Arnarson 35., 55., Þórarinn Kristjánsson 78., 88., Guðmundur Steinarsson 85.)
ÍBV 2 (Pétur Runólfsson 13., Ulrik Drost 57.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson (Branko Milicevic 60.) - Baldur Sigurðsson (Magnús Þorsteinsson 73.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Stefán Örn Arnarson (Þórarinn Kristjánsson 60.), Guðmundur
Varamenn: Magnús Þormar, Einar Orri Einarsson, Viktor Guðnason, Ólafur Jón Jónsson
Gult spjald: Kenneth Gustavsson (45.)
Dómari: Garðar Örn Hinriksson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Eyjólfur Ágúst Finnsson
Eftirlitsmaður: Guðmundur Sigurðsson
Þórarinn skorar sjötta markið með góðum skalla.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)