Myndir: Tap í lokaleiknum
Ekki tókst að ljúka góðu tímabili með sigri en naumt tap varð niðurstaðan í fjörugum nágrannaslag í Grindavík. Þrátt fyrir að leika prýðilega tókst okkar mönnum ekki vel upp við mark andstæðinganna, voru duglegir við að skjóta í markstangirnar og nýttu illa nær óteljandi hornspyrnur og sóknarfæri. Úrslit annarra leikja þýddu að niðurstaða leiksins skipti okkur ekki máli en það sama er ekki hægt að segja um Grindvíkinga sem tryggðu sér áframhaldandi veru í efstu deild með sigrinum. Stuðningsmenn liðanna geta þá hlakkað til að sjá liðin leika aftur að ári en ekki þarf að fara mörgum orðum um að leikir þessara liða eru ávallt skemmtilegir og spennandi. Þrátt fyrir tapið getum við verið ánægð með árangurinn í Landsbankadeildinni í sumar; 4. sætið er betri árangur en flestir bjuggust við og besta staða liðsins síðan árið 1998 þegar það lenti einnig í 4. sætinu. Framtíðin er því björt hjá Keflavík og ljóst að liðið mætir sterkt til leiks næsta sumar. Hér koma svo myndir sem Eygló Eyjólfsdóttir tók í Grindavík.