Fréttir

MYNDIR: Tap í opnunarleiknum
Knattspyrna | 9. maí 2013

MYNDIR: Tap í opnunarleiknum

Okkar menn máttu sætta sig við 1-2 tap í opnunarleik sínum í Pepsi-deildinni þegar við heimsóttum Íslandsmeistara FS í Kaplakrikann.  FH-ingar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik en Atli Viðar Björnsson og Albert Brynjar Ingason gerðu mörkin.  Keflavík minnkaði muninn snemma í seinni hálfleiknum þegar Marjan Jugovic skoraði í sínum fyrsta leik.  Fleiri urðu mörkin því miður ekki en okkar menn geta verið nokkuð sáttir við frammistöðuna á erfiðum útivelli.

Næsti leikur er svo fyrsti heimaleikur sumarsins sem verður gegn KR á Nettó-vellinum á sunnudag kl. 19:15.

Í myndasafnið eru komnar myndir frá leiknum gegn FH og eins og áður eru það Eygló Eyjólfsdóttir og Jón Örvar Arason sem bjóða upp á myndir frá leikjum liðsins.

  • Þetta var 47. leikur Keflavíkur og FH í efstu deild.  FH-ingar hafa nú unnið 22 leiki, Keflavík 10 en 15 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 61-79 fyrir FH.
     
  • Þetta var fjórða tap Keflavíkur í röð á útivelli gegn FH í efstu deild.  Keflavík hefur reyndar gengið afleitlega á heimavelli FH og vann þar síðast árið 1980!  Sá leikur fór 2-1 og það voru Sigurjón Sveinsson og Þórir Sigfússon sem gerðu mörk Keflavíkur.  Keflavík vann reyndar FH í bikarnum á Kaplakrikavelli árið 1986 en þá gerði Freyr Sverrisson eina mark leiksins en Andri Fannar sonur hans er einmitt í liði Keflavíkur.
     
  • David Preece, Ray Anthony Jónsson, Halldór Kristinn Halldórsson, Fuad Gazibegovic og Marjan Jugovic léku allir sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild og Marjan gerði jafnframt sitt fyrsta mark.  Andri Fannar Freysson var í fyrsta sinn í leikmannahópi í efstu deild en hann var á bekknum án þess að koma við sögu í leiknum.