Naumt tap fyrir Breiðablik
Meistaraflokkur kvenna tapaði naumlega fyrir Breiðablik, 3-2. Keflavíkurliðið mætti í Kópavoginn með rétt hugarfar, staðráðið í að selja sig dýrt og sýna gestgjöfunum enga virðingu. Keflavík byrjaði leikinn á móti sterkum vindi, spilaði vel agaðan varnarleik og áttu Blikar fá svör við duglegum Keflvíkingum. Á 37. mínútu skoraði landsliðskonan Edda Garðarsdóttir mark af 35 metra færi en fram að þeim tíma höfðu Blikar ekki skapað sér færi. Keflavíkurliðið hóf leikinn og réðist Guðný Þórðar strax á Blikaliðið, plataði þrjá Blika og renndi boltanum inn fyrir á Ólöfu Páls sem renndi boltanum fram hjá landsliðsmarkverðinum Þóru Helgadóttur. Staðan 1-1 og Keflavíkurliðið fagnaði ógurlega. Keflavík lét þar ekki við sitja og héldu áfram að spila skynsamlega. Á 41. mínútu skoraði Donna Cheyne eftir aukaspyrnu sem tekin var á hægri kanti og barst á fjærstöng þar sem Donna var mætt. Ekki var fögnuðurinn minni við það að komast yfir á móti Breiðablik, 2-1.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði, Keflavíkurliðið varðist af mikilli skynsemi. Minnstu munaði að Guðný Þórðar bætti við þriðja mark Keflavíkur er hún vann sig í færi en markmaður Blika varði meistaralega. Er líða tók tók á seinni hálfleik fór að draga af Keflvíkurliðinu og Blikar fóru að finna leiðir í gegnum vörnina og jöfnuðu á 73. mínútu með skallamarki af stuttu færi. Eftir jöfnunarmarkið jókst pressa Blika og skoruðu þær sigurmarkið með langskoti þegar tvær mínútur voru eftir.
Þessi leikur sýnir að með skynsamlegum leik getur allt gerst hjá Keflavík Liðið átti jafntefli fyllilega skilið og var liðið mjög svekkt er það gekk af velli eftir góðan og agaðan leik. Eitt er víst að Keflvíkurliðið fannst það eiga meira skilið úr þessum leik. Það verður að byggja á þessum leik, halda áfram á sömu braut og taka einn leik fyrir í einu.
Björg Ásta stýrði vörninni af röggsemi.
Næsti leikur er gegn Íslandsmeisturum Vals sem koma í heimsókn 31. maí kl. 20:00.
Lið Keflavíkur: Mist, Ágústa, Sunna, Björg, Ásdís, Claire (Hjördís), Jessica, Hrefna, Guðný, Donna (Ester), Ólöf (Andrea).
Varamenn: Þóra, Hjördís, Ester, Birna og Andrea.