Naumt tap gegn Fram í Laugardalnum
Ekki tókst Keflavík að rífa sig upp úr fallbaráttunni þegar liðið heimsótti Fram í Pepsi-deildinni. Það voru Framarar sem gerðu eina markið í jöfnum leik en það var Kristinn Ingi Halldórsson sem gerði markið snemma í seinni háfleik. Eftir leikinn er Keflavík í 7.-9. sæti deildarinnar með 21 stig.
Næsti leikur er heimaleikur gegn KR fimmtudaginn 22. september kl. 17:00.
-
Leikurinn var 86. leikur Keflavíkur og Fram í efstu deild. Þetta var 27. sigur Framara, Keflavík hefur unnið 32 leiki en 27 leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 124-116 fyrir Keflavík .
-
Einar Orri Einarsson og Guðmundur Steinarsson tóku báðir út leikbann í leiknum. Guðmundur hafði áður tekið þátt í öllum deildarleikjum Keflavíkur í sumar og nú eru það aðeins Ómar Jóhannsson og Hilmar Geir Eiðsson sem hafa leikið alla leiki liðsins í Pepsi-deildinni.
-
Magnús Þórir Matthíasson lék sinn 50. leik fyrir Keflavík í efstu deild. Magnús hefur skorað sex mörk í leikjunum fimmtíu en hann lék sinn fyrsta leik gegn Val í júní árið 2007.
-
Keflavík tapaði útileiknum gegn Fram þriðja árið í röð. Áður hafði liðið leikið fimm útileiki í röð gegn Frömurum án þess að tapa.
Fótbolti.net
Eftir markið gerðist í raun ekki margt sem er þess virði að minnast á fyrr en í blálokin. Þá átti sér stað einkar athyglisvert atvik þegar Hólmbert Aron Friðjónsson var rekinn af velli rétt rúmri mínútu eftir að hann hafði komið inn á sem varamaður. Mjög undarleg brottvísun, sérstaklega í ljósi þess að dómarinn var hlaupandi frá staðnum þar sem atvikið átti sér stað, sem enginn sá því miður almennilega.
Eftir brottvísunina var augljóst að Framarar ætluðu sér að halda fengnum hlut og lágu Keflvíkingar ansi vel á þeim í restina. Þeir fengu meðal annars skalla í stöng eftir hornspyrnu í uppbótartíma og vildu auk þess fá vítaspyrnu skömmu síðar. Lokatölur voru þó 1-0 þegar uppi var staðið og verður hörkubarátta á toppi og botni í síðustu tveimur umferðunum.
Fréttablaðið / Vísir
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, segir að sínir menn muni áfram berjast fyrir tilverurétti sínum í Pepsi-deild karla en liðið tapaði fyrir Fram í miklum botnbaráttuslag í kvöld, 1-0.
„Það er alveg ljóst að við munum ekkert gefa eftir í þessari baráttu. Það er bara það gamla góða sem gildir - að einbeita sér að einum leik í einu. Framarar eru að berjast fyrir sínu lífi og það erum við líka. Það er ekkert sjálfgefið í þessari deild og við munum halda áfram að vinna vel í okkar málum allt til enda mótsins,“ sagði Willum eftir leikinn í kvöld.
Ómar 7, Guðjón Árni 6, Viktor Smári 5, Brynjar Örn 5, Adam 5, Andri Steinn 5, Jóhann Birnir 5 (Arnór Ingvi -), Frans 5, Hilmar Geir 4, Grétar 5 (Magnús Sverrir -), Ísak Örn 5 (Magnús Þórir -).
Morgunblaðið / Mbl.is
Framarar þurfa ekki að treysta á neina aðra en sjálfa sig í tveimur síðustu umferðunum til að halda sæti sínu í Pepsideild karla í knattspyrnu eftir að þeir unnu 1:0 sigur á Keflavík í gær. Sé mið tekið af spilamennsku þeirra undanfarið eru þeir traustsins verðir. Ég hef ekki miklar áhyggjur af Keflavík en liðið er þó aðeins þremur stigum á undan Fram þegar það á þrjá leiki eftir.
M: Adam.
Víkurfréttir
Keflvíkinga urðu af mikilvægum stigum þegar þeir töpuðu 1-0 fyrir Fram á Laugardalsvelli í Pepsi-deild karla. Nú er því hlaupin mikil spenna í fallbaráttuna ekki síður en á toppnum.
Fram réð ferðinni í fyrri hálfleik og þeir náðu svo loks forystunni á 53. mínútu þegar Kristinn Halldórsson skoraði glæsilegt mark.
Keflvíkingar sóttu af krafti það sem eftir lifði leiks og svo virtist sem þeir hefðu átt að fá vítaspyrnu undir lokin þegar boltinn virtist fara í hönd varnarmanns Framara og svo átti Adam Larsson skalla í stöng í blálokin. En ekki tókst Suðurnesjamönnum að skora og því stigin Framara.
Pepsi-deild karla, Laugardalsvöllur, 19. september 2011
Fram 1 (Kristinn Ingi Halldórsson 53.)
Keflavík 0
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði, Viktor Smári Hafsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Adam Larsson, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Arnór Ingvi Traustason 62.), Andri Steinn Birgisson, Hilmar Geir Eiðsson, Grétar Hjartarson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 71.), Ísak Örn Þórðarson (Magnús Þórir Matthíasson 71.)
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Ásgrímur Rúnarsson, Magnús Þór Magnússon, Ómar Karl Sigurðsson.
Gul spjöld: Andri Steinn Birgisson (34.), Viktor Smári Hafsteinsson (60.).
Dómari: Valgeir Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Smári Stefánsson.
Eftirlitsdómari: Ingi Jónsson.
Áhorfendur: 722.
Grétar í baráttunni.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)