Fréttir

Knattspyrna | 14. maí 2008

Naumt tap gegn KR

Meistaraflokkur kvenna tapaði naumlega fyrir bikarmeisturum KR í fyrsta leik Landsbankadeildarinnar í gærkvöldi.  Leiknum lauk með 1-2 sigri KR á Sparisjóðsvellinum.  Aðstæður voru allar hinar bestu og fjölmargir áhorfendur sóttu leikinn.

Leikurinn hófst með miklum sóknarþunga KR sem ætlaði greinilega að klára fyrsta leik sinn á þessu tímabili með sigri eftir að liðinu hafði verið spáð Íslandsmeistartitli fyrir tímabilið.  Varnarlína Keflavíkurliðsins og Jelena Petrovic stóðust áhlaupin á meðan miðjan kom sér hægt og rólega inn í leikinn.  Þó svo að KR hafi haldið bolta töluvert meira en Keflavík þá sköpuðu þær sér fá færi.  Hrefna Jóhannesdóttir fékk þó færi um miðbik hálfleiksins þegar hún komst ein inn fyrir og setti boltann yfir Jelenu sem kom út á móti Hrefnu en boltinn fór í stöng og í fætur á varnarmanni Keflavíkur sem kom boltanum í burtu.  Fyrsta markið kom á 40. mínútu þegar Guðný Þórðardóttir braust upp að endamörkum hægra megin og sendi boltann fyrir mark KR.  Þar missti markvörður KR knöttinn fyrir fætur Vesnu Smiljkovic sem skoraði örugglega af stuttu færi, 1-0.  KR-ingar voru ekki lengi að jafna, það gerðu þær tveimur mínútum seinna eftir að Fjóla Friðriksdóttir hafði fengið sendingu inn fyrir vörnina.  Hún gaf fyrir mark Keflavíkur þar sem Hrefna Jóhannesdóttir mætti á fjærstöng og skoraði jöfnunarmark KR, 1-1.  Ekki gerðist neitt markvert það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikur var öllu jafnari og skiptust liðin lengi vel á sóknum.  Voru leikmenn Keflavíkur greinilega búnar að hrista af sér mesta skrekkinn og náðu að halda knettinum betur innan liðsins.  KR-ingar reyndu allt hvað þær gátu að setja mark í byrjun hálfleiksins en Keflavík var ekkert á því að gefa eftir.  Undir lok leiksins náði KR þungri sókn þar sem knötturinn barst inn í teig og þaðan af Olgu Færseth aftur fyrir endamörk.  Ekki sáu dómari eða aðstoðardómari ástæðu til að dæma Keflvíkingum markspyrnu heldur dæmdu þeir horn þar sem Katrín Ómarsdóttir skoraði sigurmark KR á 85. mínútu með skalla, 1-2.  Ekki náði Keflavík að ógna marki KR það sem eftir lifði leiks og því fór svo að KR sigraði í miklum spennuleik.

Enn og aftur er Porca tilbúinn að láta ungar og efnilegar stúlkur axla þá ábyrgð að leika með meistaraflokki.  Í þessum leik léku tvær stúlkur úr 3. flokki.  Guðrún Ólöf Ólsen byrjaði og Agnes Helgadóttir kom inn á í síðari hálfleik.  Er mjög ánægjulegt að sjá þessar ungu og efnilegu stúlkur leika fyrir Keflavík.  En þess má geta leikmannahópur Keflavíkur er mjög ungur og eigum við mikið af stúlkum sem eiga framtíðina fyrir sér.

Keflavíkurliðið á hrós skilið fyrir vel skipulagðan og agaðan leik.  Salih Heimir Porca og Kjartan Einarsson aðstoðarþjálfari eru á góðri leið með liðið.  Næsti leikur er gegn Breiðbliki í Kópavogi n.k. sunnudag og þarf Keflavík að halda áfram að leggja sig fram, þá er allt mögulegt.

Keflvík: Jelena, Ester (Helena 79.), Björg Ásta, Lilja Íris, Linda, Guðrún Ólöf (Karen 72.), Björg Magnea, Inga Lára, Danka, Vesna og Guðný (Agnes 67.).
Varamenn: Dúfa, Eva, Anna Rún og Rebekka.

Myndir: Jón Örvar


Agnes Helgadóttir einbeitt á svip í leiknum gegn KR. Vesna fylgist vel með.


Lilja, Karen, Björg Magnea og Björg Ásta ásamt A-landsliðskonum úr KR.