Naumt tap hjá 3. flokki kvenna
Stúlkurnar í 3. flokki kvenna sóttu stöllur sínar á Skipaskaga heim á miðvikudaginn var en leikið var í 11 manna liðum. Nokkur vindur var á Skaganum og stóð hann á annað markið. Okkar stúlkur léku gegn vindinum í fyrri hálfleik og lágu Skagastúlkur nokkuð á okkur. Um miðjan hálfleikinn myndaðist mikil þvaga inn í vítateig okkar og við náðum ekki að hreinsa með þeim afleiðingum að Skagastelpur komust yfir 1-0. Áður en blásið var til hlés höfðu þær bætt við marki og leiddu 2-0. Í seinni hálfleik snerist dæmið við og Keflavík sótti nokkuð stíft. Er um tíu mínutur voru liðnar fengu stelpurnar aukaspyrnu af um 30 metra færi; Eva tók spyrnuna og knötturinn steinlá í neti Skagastúlkna. Áfram hélt sóknin en inn vildi knötturinn ekki. Undir lok leiks komst Hildur ein í gegn og átti bara markmanninn eftir en var toguð niður af varnarmanni og ekkert annað í stöðunni en að dæma víti á heimamenn. En dómarinn dæmdi markspyrnu, línuvörðurinn flaggaði og kallaði síðan á dómarann og áttu þeir smá spjall saman en dómnum var ekki breytt. Þegar línuvörðurinn var spurður í leikslok á hvað hann hafði verið að flagga tjáði hann mér að hann hafi verið að flagga á vítaspyrnu. En það þýðir víst ekki að deila við dómarann, svona er boltinn. Besti leikmaður Keflavíkur í þessum leik var Eva Kristinsdóttir en annars áttu allar stelpurnar prýðisleik.
Elís Kristjánsson, þjálfari