Fréttir

Knattspyrna | 11. ágúst 2005

Naumt tap í Eyjum

Lið Keflavíkur náði ekki að hefna fyrir tap liðsins gegn ÍBV í fyrri leik liðanna í sumar er þær léku í Vestmannaeyjum í gær.  Fyrri leik liðanna í Keflavík lauk með 1-5 sigri ÍBV og skoraði Ásdís Þorgilsdóttir þjálfari mark liðsins.  Leikurinn í gær átti að fara fram á þriðjudaginn en vegna þess að ekki var hægt að lenda í Eyjum þann daginn var leikurinn settur á í gær.

Keflavíkurliðið kom vel stemmt til leiks staðráðið í að leggja sig fram og ná að sigra ÍBV í Eyjum.  Leikurinn var í miklu jafnvægi allan tímann þar sem liðinn skiptust á að sækja og spilaði Keflavík einn sinn besta leik í sumar þar sem leikmenn liðsins voru tilbúnar að mæta ÍBV stúlkum af fullri hörku.  Keflavík komst yfir strax á 4. mínútu þegar Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði með góðu skoti.  Lið ÍBV er ekki lið sem er þekkt fyrir að gefast upp og jöfnuðu þær á 9. mínútu með marki sem ansi mikil rangstöðulykt var af.  Aftur komust Keflavíkurstúlkur yfir þegar Guðný Þórðardóttir skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á ÍBV á 36. mínútu þegar einn leikmaður handlék knöttinn í vítateig.  Ekki voru Eyjastúlkur lengi að jafna sig.  Á 39. mínútu jöfnuðu þær eftir að hafa brotið sókn Keflavíkur aftur og sóttu hratt á vörn Keflavíkur.  Liðin gengu til leikhlés með stöðuna 2-2 og mikið jafnræði með liðunum.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði; með mikilli baráttu þar sem liðin skiptust á að sækja.  En það sem ÍBV hafði fram yfir Keflavík í þessum leik var „Keflvíkingurinn“ Olga Færseth en hún kom ÍBV-stelpum yfir á 52. mínútu og verður að segjast eins og er að Olga er mikill fengur fyrir ÍBV.  Ekki létu gestirnir frá Keflavík slá sig út af laginu og skoraði Nína Ósk glæsilegt mark á 62. mínútu með góðu skoti utan af velli. Sigurmark ÍBV kom á 78. mínútu eftir snarpa sókn.

Nú eru þrír leikir eftir hjá liði Keflavíkur, liðið er ekki búið að tryggja sér áframhaldandi veru í deildinni en með sambærilegri spilamennsku og í leiknum í gær eru möguleikarnir sannarlega til staðar.

TÖKUM EINN LEIK FYRIR Í EINU og tryggjum sæti okkar í deildinni.

Næsti leikur er við KR á Keflavíkurvelli 16. ágúst kl. 19:00 og hvetjum við alla til að koma og styðja stelpurnar á loksprettinum í Landsbankadeildinni.

Keflavík: Þóra, Sunna, Ásdís, Lilja, Ágústa, Hjördís, Hrefna, Guðný, Nína, Ólöf, Vesna.
Varamenn: Steindóra, Elísabet Ester.

Mynd: Hart barist í fyrri leik liðanna í Landsbankadeildinni.