Fréttir

Knattspyrna | 26. júní 2010

Naumt tap í hörkubikarleik

Það var sól og blíða á Njarðtaksvellinum í Njarðvík þegar Keflavík og FH mættust í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins á fimmtudagskvöld.  Leiknum lauk með 3-2 sigri FH í sannkölluðum hörkuleik.

Keflavík byrjaði leikinn mun betur og fékk nokkur ágætis færi.  Magnús Þórir, Hólmar Örn, Gummi Steinars og Haraldur Freyr komust allir í ágætis færi en allt kom fyrir ekki.  FH-ingar vörðust vel og beittu skyndisóknum.  Keflavík átti greinilega að fá vítaspyrnu þegar einn varnarmanna FH varði með hendinni í markteignum en Kristinn Jakobsson dómari sá ekkert athugavert.  Ómar varði mjög vel frá Atla Guðna undir lok hálfleiksins en gestirnir komust svo yfir á 44. mínútu þegar Ólafur Páll Snorrason skoraði eftir mistök okkar manna.  Staðan í hálfleik 0-1.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega og Keflavík sótti töluvert.  Blessaður dómarinn var svo aftur í sviðsljósinu þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Keflavík á 70. mínútu.  Tommy Nielsen skoraði úr spyrnunni en dómurinn var í meira lagi vafasamur.  Paul minnkaði muninn með góðu marki á 75. mínútu en fimm mínútum síðar skorarði Atli Guðnason með skalla og staðan orðin 1-3.  Okkar menn gáfust ekki upp og Haraldur Freyr fyrirliði skoraði gott mark með skalla á 85. mínútu.  En þar við sat og 2-3 tap staðreynd.

Svona er nú boltinn og Keflavík hefur stuttan tíma til að undirbúa sig fyrir næsta leik sem er gegn Val á Hlíðarenda sunnudaginn 27. júni kl. 16:00.  Þetta var síðasti leikur okkar á Njarðtaksvellinum og þann 4. júlí munum við spila á nýjum og glæsilegum Sparisjóðsvellinum í Keflavík.  Það verður deildarleikur og svo skemmtilega vill til að mótherjar okkar þá verðu FH-ingar.

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hólmar Örn Rúnarsson, Paul McShane, Andri Steinn Birgisson (Einar Orri Einarsson 30.), Magnús Þórir Matthíasson, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Ómar Karl Sigurðsson 76.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bojan Stefán Ljubicic, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Þór Magnússon og Sigurður Gunnar Sævarsson.
Dómari: Kristinn Jakobsson og honum til aðstoðar þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Tomasz Jacek Napierajczyk.


Dæmigerð barátta í dæmigerðum bikarleik.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)