Fréttir

Knattspyrna | 22. júní 2010

Naumt tap í toppslagnum

Þróttur og Keflavík léku á sunnudag á Valbjarnarvelli en þetta var uppgjör efstu liða í A-riðli 1. deildar.

Leikurinn var í jafnvægi til að byrja með en þegar líða tók á leikinn náðu Þróttarastúlkur betri tökum á leiknum.  Þær forustunni með marki á 13. mínútu en þar var Soffía Kristinsdóttir á ferðinni og Þróttur komið í 1-0.  Um miðjan hálfleikinn munaði minnstu að Keflavík næði að jafna en Þróttur bjargaði tvisvar á línu.  Það var svo á 45. mínútu sem Þróttur náði tveggja marka forystu.  Eftir að Keflavíkurstúlkum tókst ekki að koma boltanum frá náði Hrefna Huld Jóhannesdóttir boltanum og setti hann örugglega fram hjá markverði okkar og staðan orðin 2-0.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og þeim fyrri lauk.  Þróttarar voru ákveðnari á boltann og líklegri framan af.  Þær bættu við þriðja markinu á 62. mínútu en þar var Soffía aftur á ferðinni með frekar ódýrt mark.  Eftir þetta fór Keflavík að spila betur og komast meira inn í leikinn.  Okkar stúlkur uppskáru glæsilegt mark á 80. mínútu þegar Guðný setti boltann upp í hornið fjær með glæsilegu skoti eftir hornspyrnu.  Og ekki fylgdi síðra mark í kjölfarið á 83. mínútu þegar Nína Ósk slapp í gegn og negldi boltanum upp í fjærhornið.  Þetta færði spennu í lokamínúturnar, Keflavík pressaði það sem eftir var leiks og vildu meðal annars fá víti á síðustu mínútunni en ekkert dæmt og úrslitin því 3-2 fyrir Þrótt.

Keflavík var ekki að spila sinn besta leik en náðu að rífa sig upp í lokin gegn sterku liði Þróttar og framhaldið verður bara skemmtilegt.


Nína Ósk skoraði glæsilegt mark en það dugði ekki að þessu sinni.