Naumur en dýrmætur útisigur
Keflavík er á toppi Landsbankadeildarinnar eftir nauman útisigur gegn Grindvíkingum í gær. Leikurinn var í daufara lagi miðað við fyrri leiki þessara liða. Aðeins eitt mark sá dagsins ljós þegar Andri Steinn Birgisson varð fyrir því að senda boltann í eigið mark eftir aukaspyrnu frá Guðmundi Mete. Keflavík er nú með 18 stig eftir 7 leiki og hafa tveggja stiga forystu á FH sem eiga leik til góða. Grindavík er í 10.-11 sæti deildarinnar með 6 stig. Næstu Keflavíkur er bikarleikur gegn Stjörnunni fimmtudaginn 19. júní. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og nú er um að gera að mæta á fyrsta heimaleik okkar í bikarnum í mjög, mjög langan tíma.
Víkurfréttir
Keflvíkingar eru komnir á toppinn í Landsbankadeild karla eftir mikilvægan sigur á Grindavík í nágrannaslag á Grindavíkurvelli í dag. Andri Steinn Birgisson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 29. mínútu sem reyndist þegar upp var staðið, eina mark leiksins.
Flestir hefðu vafalaust búist við fjörugum leik því leikir þessara liða hafa undanfarin ár verið hin besta skemmtum. Keflvíkingar hafa verið á mikilli siglingu og leikið leiftrandi og skemmtilegan sóknarbolta. Að sama skapi hafa Grindvíkingar verðið að sækja í sig veðrið að undanförnu eftir slaka byrjun. Það má því segja að þeir sem lögðu leið sína á Grindavíkurvöll í dag hafi fengið lítið fyrir peninginn því allan sóknarbrodd vantaði í bæði liðin.
Bæði lið þurftu að gera breytingar á liðum sínum sem unnu í síðustu umferð. Galdramaðurinn Scott Ramsey var fjarri góðu gamni vegna leikbanns i liði Grindavíkur. Nicolai Jörgensen var ekki með Keflvíkingum í dag vegna meiðsla en Þórarinn Brynjar Kristjánsson lék í hans stað þó að Hallgrímur Jónasson tæki stöðu Jörgensen í hægri bakverðinum.
Fótbolti.net
„Þetta var ekki sannfærandi en fáum við ekki leyfi til að spila allavega einn svona leik?“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir 0-1 sigur hans manna á Grindavík í Landsbankadeildinnni í dag.
„Við erum búnir að bjóða upp á mikla skemmtun í leikjunum hingað til. Þetta datt svona inn, þetta var svolítið hægur leikur og völlurinn hrikalega þurr og harður og erfitt að spila skemmtilegan fótbolta. Fyrst og fremst var hugarfarið í lagi og okkur tókst að klemma inn 1-0 sigur en við erum ekkert voðalega klókir í því og það sást alveg.“
Framherjar Keflavíkur virtust aldrei líklegir til neins í leiknum í dag og allann þann kraft í framlínunni sem Keflavík er þekkt fyrir vantaði í dag, voru framherjarnir ekki tilbúnir í leikinn?
„Nei, ég held að það sé akkúrat málið, þeir voru bara ekki tilbúnir, allavega ekki til að klára þetta,“ sagði Kristján en gott dæmi um hversu slakir framherjarnir voru kom í uppbótartíma þegar þeir komu fjórir upp á móti einum varnarmanni Grindavíkur og í stað þess að klára sóknina með sendingu og skoti skaut Guðmundur Steinarsson framhjá. „Skelfilega illa gert, alveg til skammar, þetta verður tekið fyrir á morgun,“ sagði Kristján um þetta færi en hann óttaðist ekki að fá þetta í andlitið aftur með marki hinum megin á vellinum. „Mér fannst Grindavík ekkert ógna markinu verulega. Við vorum alltaf með fjögurra manna varnarlínu klára og svona svo ég var ekkert hræddur við það.“
Hólmar Örn Rúnarsson var í byrjunarliði Keflavíkur sem hafði verið gefið upp til fjölmiðlamanna fyrir leik en þegar liðin gengu inná kom sú tilkynning að hann yrði ekki með í dag, hvað olli því?
„Hann er með meiðsli aftan í læri, við héldum að hann gæti spilað allavega einhvern hluta úr leiknum en það var ekki hægt,“ sagði Kristján en framherjinn Þórarinn Brynjar Kristjánsson tók stöðu hans sem djúpur miðjumaður og stóð sig mjög vel í þeirri stöðu. „Ég verð að vera ánægður með Þórarinn því hann fær að vita að hann eigi að spila leikinn einni mínútu fyrir leik,“ sagði Kristján. „Ég get ekki verið annað en ánægður með hann að bregðast svona við. Hann spilaði á þriggja manna miðju þegar hann var hjá Þrótti en þá var hann með tvo fyrir aftan sig. Hann var bara flottur í dag, öflugur að sækja boltann og öflugur að skila honum frá sér.“
Mikla athygli vakti í síðari hálfleiknum þegar Jón Gunnar Eysteinsson kom inn á sem varamaður en Keflvík hafði í gærkvöld tilkynnt á vefsíðu sinni að Jón Gunnar væri kviðslitinn og myndi verða frá keppni næstu tvo mánuðina vegna þessa. Hvað olli þessu?
„Hann er kviðslitinn en við spilum honum aðeins áfram núna meðan það er þétt spilað núna þessa vikuna,“ sagði Kristján. „Það eru þrír leikir núna í viku og við ætlum að láta hann spila meðan sú törn er.“
Næsti leikur Keflavíkur er í VISA-bikarnum á fimmtudagskvöldið og mótherjarnir eru 1. deildarlið Stjörnunnar úr Garðabæ sem Kristján sá vinna Víking Ólafsvík 3-0 í gær.
„Þeir verða erfiðir, það er alveg klárt,“ sagði Kristján. „Bjarni [Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar] er að sjóða saman skemmtilega súpu til að galdra á móti okkur á fimmtudaginn. Þetta verður bara erfitt mál og við þurfum að skoða bara hvernig standið er á okkar mönnum. Það verður ekkert gefið eftir, ekkert vanmat hjá okkur.“
Morgunblaðið
Það er ekki daglegt brauð að þjálfarar í knattspyrnu, eða nokkurs staðar ef út í það er farið, séu þokkalega sáttir við tap í leik en þannig er best hægt að lýsa viðbrögðum Milan Stefáns Jankovic þjálfara Grindavíkur eftir tapið heima gegn erkifjendunum úr Keflavík. Ekki aðeins vantaði þrjá lykilmenn í liðinu sem fengu allir rauð spjöld í síðasta leik liðsins gegn Fram heldur var þjálfarinn sjálfur í banni vegna mótmæla í þeim sama leik.
„Ég get bara ekki verið mjög fúll með þessa frammistöðu okkur gegn Keflavík því leikmenn mínir voru að spila ágætlega og áttu í fullu tré við andstæðinginn allan leikinn og jafnvel hægt að segja að við höfum verið betri aðilinn í leiknum. Þarna voru að koma inn strákar sem hafa ekki mikla reynslu en sýndu sannarlega hver einasti þeirra að þeir eiga fullt erindi í aðalliðið og báru enga virðingu fyrir gestunum og meira get ég ekki farið fram á. Við getum sagt sem svo að ef heppnin hefði verið með okkur einu sinni eða tvisvar í einhverju af þessum fjölmörgu færum sem við sköpuðum okkur þá hefðu það verið Keflvíkingar sem hefðu farið stigalausir frá okkur og það gegn hálfu liði má segja.“
Ómar Jóhannsson M, Guðmundur Mete M
Fréttablaðið
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var eðlilega sáttur með stigin þrjú. „Við erum í þessu til þess að vinna þannig að ég er ánægður með að taka þrjú stig. Mér fannst leikurinn hins vegar vera alltof hægur og óvenjulegt að sjá þessi lið spila á þennan hátt. Völlurinn hefur hugsanlega haft eitthvað að gera með það þar sem hann er þurr og harður og erfitt að spila með jörðinni. Við höfðum að mér fannst nokkuð góð tök á leiknum og vorum ekkert að hleypa þeim í nein dauðafæri,“ sagði Kristján sem fagnaði því að lið hans hafi loksins náð að halda hreinu.
Eysteinn Hauksson, fyrirliði Grindavíkur, gat ekki leynt vonbrigðum sínum með að fá ekkert út úr leiknum. „Mér fannst við vera tilbúnir í leikinn en við náðum ef til vill ekki að skapa okkur nógu mikið af marktækifærum. Þetta er eitthvað sem við erum búnir að vera að skoða hjá okkur og þurfum að laga. Mér fannst við hafa yfirhöndina í návígum út um allan völl en það vantaði eitthvað upp á til að klára sóknirnar með marki,“ sagði Eysteinn að lokum.
Ómar 7, Guðjón 7, Guðmundur Mete 8, Kenneth 7, Hallgrímur 7, Hörður 6 (Brynjar -), Þórarinn 6 (Jón Gunnar 6), Hans 7, Símun 7, Patrik 5 (Magnús 5), Guðmundur 7.
Maður leiksins: Guðmundur Mete.
Landsbankadeildin, 15. júní 2008 - Grindavíkurvöllur
Grindavík 0
Keflavík 1 (Sjálfsmark 29.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Hallgrímur Jónasson - Hörður Sveinsson (Brynjar Guðmundsson 82.), Þórarinn Kristjánsson (Jón Gunnar Eysteinsson 52.), Hans Mathiesen, Símun Samuelsen - Guðmundur Steinarsson, Patrik Redo (Magnús Þorsteinsson 54.)
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Einar Orri Einarsson, Högni Helgason.
Gul spjöld: Þórarinn Kristjánsson (40.), Símun Samuelsen (68.), Brynjar Guðmundsson (90.)
Dómari: Einar Örn Daníelsson.
Aðstoðardómarar: Einar K. Guðmundsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson.
Varadómari: Hans Kristján Scheving.
Eftirlitsmaður: Ingi Jónsson.
Áhorfendur: 830.

Boltinn á leiðinni í markið og eina mark leiksins komið.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)