Fréttir

Knattspyrna | 8. júní 2004

Naumur en mikilvægur sigur á Víkingum

Keflavík vann mikilvægan en nauman sigur á Víkingum í 5. umferð Landsbankadeildarinnar á Keflavíkurvelli í gærkvöldi.  Eina mark leiksins skoraði Þórarinn Kristjánsson á 74. mínútu.  Eftir innkast og barning í vítateig Víkinga átti Sreten skot sem markvörður gestanna varði en Þórarinn fylgdi vel á eftir og kom boltanum í netið.  Þess má geta að markið var 27. mark Þórarins fyrir Keflavík í efstu deild og er hann nú í 6.-7. sæti yfir mestu markaskorara félagsins ásamt Friðriki Ragnarssyni.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað, baráttan í fyrirrúmi og færin létu standa á sér.  Víkingar sóttu nokkuð síðustu mínútur leiksins en tókst ekki að finna leið framhjá Ólafi í markinu.  Magnús fékk síðan tvö færi undir lokin en tókst ekki að nýta þau en sigurinn var engu að síður í höfn.


Þórarinn fagnar sigurmarkinu.
(Mynd: Héðinn Eiríksson /
Víkurfréttir)