Naumur en sanngjarn sigur gegn Fylki
Keflavík sigraði Fylki 1-0 í 13. umferð Pepsi-deildarinnar á Sparisjóðsvellinum í Keflavík á fimmtudaginn. Sigurmarkið gerði Hólmar Örn Rúnarsson á 57. mínútu með skoti fyrir utan markteiginn. Keflavíkurliðið var mun betra og átti nokkur ágætisfæri í leiknum. Þar höfðu þeir sig mest frammi þeir Haukur Ingi og Gummi Steinars. Sanngjarn sigur í höfn og okkar lið klifrar upp stigatöfluna. Keflavík er nú í 3.-5. sæti deildarinnar með 23 stig, jafnmörg og og Fylkir og Stjarnan.
Næsti leikur er svo mánudaginn 27. júlí gegn Valsmönnum á Hlíðarenda.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Arni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson fyrirliði (Einar Orri Einarsson 85.), Jón Gunnar Eysteinsson, Guðmundur Steinarsson, Haukur Ingi Guðnason (Jóhann Birnir Guðmundsson 70.), Símun Samuelsen.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þórir Matthíasson, Þorsteinn Atli Georgsson og Stefán Örn Arnarsson.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með leyfi:
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var virkilega sáttur með að ná þremur stigum í kvöld á móti Fylki.
,,Við erum mjög sáttir með að sigra sterkt Fylkislið og láta það duga svona einu sinni að skora bara eitt mark til að fá þrjú stig.
Einhvern veginn tóks hvoru liðinu í raun að spila sig í gegnum andstæðinginn, mér fannst bæði lið missa boltann fljótt í sínum sóknaraðgerðum og fyrir vikið var þetta svona mikið fram og til baka og það getur verið þreytandi fyrir okkur sem sitjum á bekknum en það hlýtur að hafa verið nóg að gera fyrir áhorfendur að horfa á, ég trúi ekki öðru " sagði Kristján við fótbolta.net eftir leikinn
Það var ansi umdeilt atvik á 40 mínútu þega Haukur Ingi er tekinn niður inn í teig Fylkis.
,,Ég hef svosem ekkert við því að segja annað en það að dómarinn dæmir útfrá sinni eigin staðsetningu og hans mat í því sjónarhorni sem hann hefur er að þarna sé ekki um brot að ræða og við verðum bara að sætta okkur við það"
Guðmundur Steinarsson kominn aftur inn í Keflavíkurliðið og hlýtur það að vera gríðarlega mikill liðstyrkur sem kemur með honum.
,,Guðmundur kemur með ákveðna festu inn í okkar leik og ákveðnir þættir sem verða betri í leik liðsins. Því fyrr sem hann kemst í 100% leikform að þá verðum við sterkari"
Þú lýstir því yfir í dag að hann myndi skora á fyrstu 15 mínútunum en það gekk ekki eftir.
,,Það gekk ekki eftir nei, en ég sá það að hann tók mig á orðinu og tók skot þarna á 10 mínútu þegar við vorum fjórir á móti tveimur þannig hann hefði betur gefið hann. En hann vildi að ég stæði við orðin mín en það tókst ekki"
,,Það er mjög flott að ná hér sigri og ýta okkur enn ofar í þennan 2 sætis pakka."
Það virðist vera erfitt fyrir önnur lið að ætla að stoppa FH þannig að baráttan er bara um annað sætið og þar með evrópusæti.
,,Já það má eiginlega kalla það það sko. En við einbeittum okkur bara að einum leik í einu eins og gjarnan er best og menn tala um. Menn verða bara að mæta ferskir á Hlíðarenda á mánudaginn " sagði Kristján að lokum.
Hólmar Örn og félagar fagna sigurmarkinu.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)