Fréttir

Knattspyrna | 12. júlí 2007

Naumur sigur gegn Þrótti

Keflavík er komið í 8 liða úrslit VISA-bikarsins eftir nauman sigur gegn Þrótti á útivelli í gærkvöldi.  Aðeins eitt mark var skorað í leiknum og það skoraði Sigurbjörn Hafþórsson á 13. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Símun Samuelsen.  Vel gert hjá Sigurbirni sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir Keflavík en hann kom frá KS fyrir þetta tímabil.  Eftir markið sóttu Þróttarar mun meira og voru nokkrum sinnum aðgangsharðir við markið.  Ekki tókst liðunum að skora fleiri mörk og mark Sigurbjörns kom okkar mönnum því áfram í bikarnum.

Næsti leikur Keflavíkur er heimaleikur gegn KR á sunnudaginn, 15. júlí.  Leikurinn fer fram á Keflavíkurvelli og hefst kl. 19:15.

Morgunblaðið
Keflavíkurliðið í heild olli vonbrigðum en Kristján Guðmundsson, þjálfari liðsins, sagðist þó ekki geta verið ósáttur enda hefði sigur náðst.  „Stundum þróast leikirnir einfaldlega á þennan veg. Við vorum ágætir á upphafskaflanum og náðum þessu marki úr fínni sókn, en svo erum við meira í að verjast. Völlurinn býður ekki upp á að lið spili góðan fótbolta en spennustigið var einnig hátt í liðinu,“ sagði Kristján. Keflvíkingar hafa verið mikið í umræðunni eftir leikinn fræga gegn ÍA í síðustu viku og vísast hefur verið erfitt að fá leikmenn til að einbeita sér að leiknum í gær. „Það var átak, sem gekk þó allavega nógu vel til að vinna þennan leik. Það er mjög gott að honum sé lokið,“ sagði Kristján.

Fréttablaðið
Bikarmeistarar Keflavíkur hófu titilvörn sína með litlum glans í gær þegar liðið lagði Þrótt, 0-1, á Valbjarnarvelli. Keflavíkurliðið mætti illa stemmt til leiks og skoraði nánast úr sínu eina færi í leiknum. Góður varnarleikur tryggði því síðan sæti í átta liða úrslitum VISA-bikarsins. Kristján Guðmundsson hafði gert nokkrar breytingar á liði sínu og gaf minni spámönnum á borð við Sigurbjörn Hafþórsson og Þorstein Georgsson tækifæri og svo fékk Bjarki Guðmundsson að standa á milli stanganna.

Fótbolti.net
Gestirnir komust yfir með sínu fyrsta og eina skoti í leiknum. Símun Eiler Samuelsen átti þá einleik upp vinstri kantinn eins og svo oft áður í sumar. Hann kom sér alla leið upp að markteig Þróttara vinstra meginn og sendi boltann fyrir þar sem var mættur Sigurbjörn Hafþórsson sem skoraði með sinni fyrstu snertingu fyrir Keflavík í sumar. Þróttarar vildu margir meina að hann hafði skorað með hendi en Sævar Jónsson góður dómari leiksins lét sér fátt um finnast.

Gras.is
Guðmundur Steinarsson, leikmaður Keflavíkur sagði eftir 1-0. sigur á Þrótti í bikarnum að liðið hafði gert það sem dugði. Knattspyrnan hafi alls ekki verið falleg en nóg.

Þetta var ekki góður leikur hjá ykkur í kvöld?
Þetta var samt nóg.

Ekki lögðu þið upp með svona leik?
Nei við lögðum ekki upp þetta eins og raunin var. En markmið var að vinna leikinn sem við gerðum og skora fleiri mörk en þeir og það tókst en það er ekki alltaf fallegt.

Hvar var Keflavíkur-spilið sem maður hefur séð svo oft í sumar?
Það er kannski ekki ein skýring á því. Völlurinn er einn partur af því kannski. Jafnvel líka hjá leikmönnum að þeir eru að spila gegn liði í deild fyrir neðan. Það er ýmsir samverkaþættir sem koma inní.

Þið skorið þetta mark sem þið ætluð að gera fljótlega og svo bara pakkað í vörn?
Já þeir lágu á okkur en það var kannski aldrei hætta af því sem þeir voru að gera.
Þeir voru að dæla inn löngum boltum og við með 2.metra markmann fyrir aftan sem tók þetta allt saman

Þetta sterkt lið hjá Þrótti?
Já þeir eru góðir og eiga fína möguleika að komast upp. Maður sér alveg handbragð Gunnars Oddssonar á þessu liði, berjast allan tíman og gefast alls ekki upp.


Valbjarnarvöllur, VISA-bikarinn, 11. júlí 2007

Þróttur 0
Keflavík 1 (Sigurbjörn Hafþórsson 13.)
Keflavík:
Bjarki Freyr Guðmundsson - Guðjón Antoníusson (Garðar Eðvaldsson 31.), Þorsteinn Georgsson, Nicolai Jörgensen, Branko Milicevic - Marco Kotilainen, Baldur Sigurðsson, Hallgrímur Jónasson, Símun Samuelsen - Sigurbjörn Hafþórsson (Guðmundur Steinarsson 46.), Þórarinn Kristjánsson.
Varamenn: Ómar Jóhannsson  Högni Helgason, Davíð Örn Hallgrímsson, Óttar Steinn Magnússon.
Gul spjöld: Baldur Sigurðsson (44.), Símun Samuelsen (88.)

Dómari: Sævar Jónsson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Örvar Sær Gíslason.
Eftirlitsmaður: Geir Agnar Guðsteinsson.

Áhorfendur:



Sigurbjörn skoraði sigurmarkið í sínum fyrsta leik.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)