Fréttir

Knattspyrna | 14. september 2005

Nes í heimsókn

Iðkendur hjá Íþróttafélaginu Nesi komu í sína árlegu heimsókn á æfingu hjá meistaraflokki karla laugardaginn 10. september s.l.  Eins við var að búast var mikil gleði og kátína í þeirra herbúðum.  Félagar hafa nýhafið haustæfingar í Heiðaskóla og mikill kraftur var í mannskapnum.  Keflavík hafði fengið Vífilfell og Olís í samstarf með sér til að gera gestunum glaðan dag.  Öll fengu þau peysur frá Vífilfelli og húfu frá Olís og þau sem áttu ekki tækifæri á að mæta fengu gjafirnar á æfingu eftir helgina.  Þá voru grillaðar pylsur frá SS sem sturtað var niður með Coke og ís frá Emmessís á eftir.  Þá fengu allir viðstaddir boðsmiða á leik Keflavíkur gegn Fram s.l. sunnudag og voru Nes fólkið heiðursgestir á leiknum ásamt vinum og vandamönnum.  Það var líka frábær lukka að hafa þau á vellinum og óhætt að segja að þau séu okkar „Lukkutröll“ því loks unnum við heimaleik, í þetta skipti 2-1.  Við þökkum íþróttafólkinu frá Nesi kærlega fyrir heimsóknina.  Það er fátt skemmtilegra en að gleðja jafn þakklátan hóp og þarna var saman kominn, hóp sem með öllu hjarta heldur með sínu liði og dáir leikmenn og þjálfara Keflavíkur.  Áfram Nes.  Áfram Keflavík.  ási 

(Myndir: Jón Örvar Arason)