Nettómót 2020 - 7.flokkur stúlkna
Nettómót Keflavíkur 2020
Nettómót Keflavíkur fyrir 7.flokk kvenna fer fram helgina 6-7.júní. Spilaður er 5 manna bolti og keppt er í Reykjaneshöllinni og á æfingasvæði Keflavíkur við Reykjaneshöllina. Spilað er allan laugardag og allan sunnudag og eru áætlaðir 8-10 leikir á hvert lið.
Á mótinu eru ungar fótboltastelpur að stíga sín fyrstu skref og er markmið mótsins að þær fái að njóta þess að spila fótbolta með leikgleðina að leiðarljósi. Á mótinu er mikil áhersla lögð á félagslega þáttinn og verður mikið um að vera fyrir iðkendur til viðbótar við fótboltann.
Vegna þess ástands sem ríkir í samfélaginu fer mótið fram með örlítið óhefðbundnara sniði en hefði verið. Keflavík mun alfarið fylgja þeim tilmælum sem koma frá yfirvöldum og er skipulagning unnin í samráði við heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir. Við höfum því lagt mikla vinnu í að skipuleggja mótið hjá okkur svo það geti farið fram samkvæmt þeim reglum sem eru gildandi án þess að það bitni á gæðum mótsins.
Keppnissvæðinu verður skipt upp í þrjú minni svæði og hefur hvert svæði sér inngang, salernisaðstöðu og veitingaaðstöðu. Hvert lið spilar alla sína leiki hvorn dag í einu svæði. Þjálfarar geta farið á milli svæða eftir sérstakri leið.
Mikið verður lagt upp úr hreinlæti og verður búnaður og snertifletir sótthreinsaðir reglulega.
Einnig þarf líklega að einhverju leyti að takmarka fjölda fullorðinna áhorfenda og verður það í samræmi við gildandi reglur. Mikið er lagt upp úr afþreyingu á mótinu og er stefnan að reyna að draga ekki úr afþreyingu fyrir iðkendur en takmarka fjölda fullorðinna sem getur fylgt þar.
Skráning fer fram á netfanginu solrun@keflavik.is.
Staðfestingargjald fyrir hvert lið (ekki félag) er 10.000kr. Staðfestingargjald gildir fyrir einn liðsstjóra með hverju liði og ekkert er greitt fyrir þjálfara. Þátttökugjald fyrir hvern iðkanda er svo 14.900kr.
Innifalið í mótsgjöldum er:
Fullt af fótbolta! Gert er ráð fyrir 8-10 leikjum á lið
Verðlaunapeningur og mótsgjöf frá Nettó
Bíóferð í Sambíó
Frítt í Vatnaveröld alla helgina
Gisting í Holtaskóla
Hádegismatur og Kvöldmatur á laugardegi
Morgunmatur og Hádegismatur (Pizzaveisla frá Langbest) á sunnudegi
Kvöldvaka á laugardegi